Sala jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum í hendur bresks auðkýfings er órækur vitnisburður um vesaldóm íslenskra stjórnvalda. Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, sem beitti sér á sínum tíma gegn því að kínverski fjárfestirinn Huang Nubo fengi keypt jörðina.
Ítarleg umfjöllun mbl.is: Ratcliffe fékk en Nubo ekki
Í pistli á heimasíðu sinni segir hann að samkvæmt hans heimildum hafi sumir þeirra, sem nú hafa selt jörðina, helst viljað að ríkið hefði keypt hlut þeirra.
Það vildu líka um 150 einstaklingar, allsstaðar að úr þjóðfélaginu, úr öllu hinu pólitíska litrófi, öllum aldurshópum - sem haustið 2012 skrifuðu undir áskorun um að ríkið festi kaup á jörðinni þannig að þjóðin eignaðist hana að fullu, en þessi landmikla jörð liggur í þjóðlendujaðrinum norður af tveimur jörðum sem eru þegar í ríkiseign, Víðidal og Möðrudal,“ skrifar Ögmundur.
Ríkið eigi um fjórðung af Grímsstöðum á Fjöllum og því hefði verið rökrétt að styrkja með kaupunum almannaréttinn, í kraga sem umlyki öræfi Íslands.
„Eins og eflaust flestir muna sluppum við með skrekkinn eftir viðureignina við kínverskan auðkýfing sem ætlaði sér að komast yfir þetta sama landsvæði,“ rifjar hann upp.
„Það þekkja þeir sem beittu sér í þeirri viðureign að ekki var við auðkýfinginn einan að glíma heldur ekki síður við þá Íslendinga sem reiðubúnir voru til landsölunnar ef græða mætti á henni! Á þessum tíma varð mér oft hugsað til þess hve auðvelt er að missa landið úr greipum okkar. Sú hugsun kemur nú að nýju upp í hugann.“
Nú sé kominn nýr auðkýfingur til sögunnar, sem sé borgari á Evrópska efnahagssvæðinu og standi því betur að vígi en sá kinverski.
„Annars vegar tel ég það vera grundvallaratriði að halda eignarhaldi á landi innan landsteinanna, að það verði í eigu aðilja sem búa á Íslandi. Tilteknir eigendur kunna að vera í góðu lagi eins og sagt er. En þeir eru dauðlegir sem kunnugt er og að þeim gengnum tekur markaðurinn við eignum þeirra.
Íannan stað þarf að koma í veg fyrir að stór landsvæði safnist á hendur fárra auðmanna. Í þriðja lagi þarf að tryggja eignarhald á náttúrudjásnum Íslands hjá þjóðinni,“ skrifar Ögmundur.
„Kaup ríkisins á Grímsstöðum á Fjöllum hefði verið til marks um skilning á slíkum sjónarmiðum og virðingarvottur við allt það fólk sem beðið hefur stjórnvöld að taka tillit til slíkra viðhorfa. Í stað þess sitjum við nú uppi með órækan vitnisburð um vesladóm íslenskra stjórnvalda.“