Háskólinn í Reykjavík ætlar að reisa 390 háskólaíbúðir á svæðinu neðan Öskjuhlíðar þar sem skólinn er til húsa. Áætlað er að íbúar verði á bilinu 500-700 talsins.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Háskólans í Reykjavík hefur verið auglýst. Í breytingunni felst stækkun á deiliskipulagssvæðinu neðan Öskjuhlíðar þar sem gert er ráð fyrir fjölgun háskólaíbúða á svæði Háskólans í Reykjavík úr 350 í 390 og hækkun húsa að hluta. Á tveimur lóðum, í krika Flugvallarvegar og Nauthólsvegar, er gert ráð fyrir lóð fyrir skólahúsnæði og lóð fyrir íbúðarbyggð. Heildarbyggingamagn er áætlað tæpir 45 þúsund fermetrar.
Fyrir liggur deiliskipulagið „Háskólinn í Reykjavík“ frá árinu 2007, sem síðast var breytt árið 2015. Það tekur yfir um 20 hektara lands sem HR var úthlutað árið 2007. Syðst á svæðinu hefur þegar verið byggð 30.000 fermetra háskólabygging.
„Með uppbyggingu samkvæmt deiliskipulagstillögu verður stuðlað að heilsteyptara byggðarmynstri á staðnum sem tengir saman Háskólagarða HR og Hlíðarenda, samanber einnig markmið um uppbyggingu í Vatnsmýrinni,“ segir m.a. í deiliskipulagstillögunni, sem unnin er af Kanon arkitektum. Sú arkitektastofa varð hlutskörpust í samkeppni um hönnun svæðisins árið 2014.
„Íbúðirnar 390 eru fyrst og fremst hugsaðar fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík. Það mun bæta aðstöðu nemenda HR verulega að hafa aðgengi að húsnæði á háskólasvæðinu,“ segir Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík, spurður um áform skólans.
Hvað er reiknað með mörgum íbúum í þessum húsum?
„Íbúðirnar eru af ýmsum stærðum, frá því að vera einstaklingsíbúðir upp í litlar fjölskylduíbúðir. Það má því gera ráð fyrir að íbúar verði nokkru fleiri en íbúðirnar, á bilinu fimm til sjö hundruð.“
Einnig verður byggt nýtt skólahúsnæði. Liggur fyrir hvaða greinar verða kenndar þar?
„Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um að bæta við húsnæði HR til kennslu, þó svo að það sé möguleiki sem nýttur verður í framtíðinni. Á svæðinu verða hins vegar bæði leikskóli og grunnskóli.“
Mun þetta ekki þýða fjölgun nemenda og starfsfólks? Hve margir nemendur eru í HR í dag og hve margir starfsmenn?
„Það er líklegt að nemendum og starfsfólki muni fjölga eitthvað á næstu árum, sem er ótengt þeim framkvæmdum sem fram undan eru. Í dag eru um 3.600 nemendur við HR og fastráðnir starfsmenn um 250, en HR nýtur einnig liðsinnis fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga.“
Hvenær reiknið þið með að framkvæmdir geti hafist?
„Framkvæmdir við fyrst áfanga munu hefjast næsta vor ef allt gengur eftir og í þeim fyrsta áfanga verða 112 íbúðir. Þetta verður byggt upp í nokkrum áföngum og mun hraði þróunarinnar ráðast af því hvað verður hagkvæmast og hentugast fyrir nemendur.“
Liggur fyrir kostnaðaráætlun fyrir þetta mikla verkefni?
„Já, það hefur verið unnin nákvæm kostnaðaráætlun fyrir verkefnið, enda mikilvægt að vel takist til. Í dag er áherslan lögð á kostnað vegna fyrsta áfanga og verið að ganga frá fjármögnun hans.“
Verður unnið að lausnum á umferðarvanda sem gæti fylgt fjölgun nemenda og starfsmanna?
„Þessa framkvæmdir munu ekki auka á þann umferðarvanda sem til staðar er í dag. Þvert á móti mun bygging íbúða fyrir nemendur draga úr umferð enda eru þá fleiri nemendur í göngufæri við HR,“ segir Ari Kristinn Jónsson.