„Ógæfa“ Sigmundar efst á blaði

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við Bessastaði þegar hann fór á frægan …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við Bessastaði þegar hann fór á frægan og umdeildan fund við þáverandi forseta, Ólaf Ragnar Grímsson. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, er sagður ógæfusamasti þjóðarleiðtoginn sem ljóstrað var upp um í Panamaskjölunum í ársuppgjöri breska blaðsins The Guardian. Vísar blaðið til þess þegar hann reyndi að útskýra aðkomu sína að félaginu Wintris fyrir framan sjónvarpsmyndavél.

The Guardian var eitt heimsblaðanna sem fengu aðgang að Panamaskjölunum en í grein sem birtist á vefsíðu þess í dag eru rifjaðar upp afleiðingar uppljóstrananna víða um heim. Þar er fyrst sagt frá örlögum Sigmundar Davíðs eftir að í ljós kom að hann hafði ásamt konu sinni átt félagið Wintris sem átti kröfu í þrotabú föllnu bankanna.

„Af öllum þjóðarleiðtogunum sem kölluðu yfir sig skömm með auði földum á aflandssvæðum var enginn óheppnari en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ógæfusami forsætisráðherra Íslands náðist á myndavél reyna að finna út úr því hvernig hann ætti að útskýra undirskrift sína á skjali Wintris Inc., fyrirtækis á Bresku-Jómfrúareyjum sem átti hluti í einum af föllnu bönkum landsins,“ segir í umfjöllun blaðsins.

Rifjar blaðið upp að í kjölfar sjónvarpsviðtalsins fræga hafi einn af hverjum tíu Íslendingum mótmælt fyrir utan Alþingi, meðal annars með því að sletta jógúrt og veifa banönum. Sigmundur Davíð hafi á endanum neyðst til að segja af sér og þar með hafi tekið við pólitískir umrótatímar á Íslandi.

The Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert