Valahnúk á Reykjanesi hefur verið lokað fyrir umferð fólks, eftir að stór sprunga við brún hnúksins tók að stækka. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta, þar sem segir að óhjákvæmilega muni ytri hlutinn hrynja úr hnúknum.
Varhugavert geti verið að ganga nærri brúninni.
„Í samráði við almannavarnir og Reykjanesbæ var því tekin sú ákvörðun fyrir síðustu helgi að loka fyrir uppgöngu á Valahnúk. Lokunin gildir þar til annað verður ákveðið,“ hefur vefurinn eftir Eggerti Sólberg Jónssyni, hjá Jarðvangi Reykjaness, af Facebook-síðu ferðaþjóna á Reykjanesi.
„Ég vona að þið sýnið þessari ákvörðun skilning og upplýsið ykkar ferðamenn um hættuna sem fylgir uppgöngu ef þeir taka ekki mark á merkingum á svæðinu.“