„Íslendingar drekka 130 lítra af gosi á ári. Íslensk börn borða alltof mikið af viðbættum sykri samkvæmt öllum álitum sem um það birtast,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í pontu Alþingis í morgun. Talaði hún fyrir frekari skattlagningu á sölu gosdrykkja, til að efla lýðheilsu Íslendinga.
„Og samkvæmt þeim rannsóknum sem við þekkjum utan úr heimi, er sykurskattur besta leiðin til þess að draga úr sykurneyslu. Við erum í raun og veru að horfa á tímasprengju í heilbrigðiskerfinu þegar kemur að vaxandi sykurneyslu.“
Tillaga Katrínar var til breytinga á fjárlögum, um að gosdrykkir yrðu færðir í efra þrep virðisaukaskatts. Sagði hún að um væri að ræða skref í átt að lýðheilsumarkmiði, sem ríkisstjórnin virtist leggjast gegn, auk þess sem í þessu fælist fjáröflun fyrir ríkissjóð.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, steig í pontu og sagðist munu berjast með Vinstri grænum fyrir þessum skatti á næsta ári, en tíminn til þess væri ekki núna.
Tillagan var felld með 45 atkvæðum gegn níu. Fimm greiddu ekki atkvæði.