Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, er vongóður um að þing ljúki störfum í kvöld eða nótt. „Það dregst væntanlega eitthvað, en það er enn raunhæft og ég er vongóður að það gangi eftir,“ segir hann.
Nokkuð breið sátt hefur verið um afgreiðslu útgjalda og tekjufrumvarp ríkissjóðs vegna fjárlaga næsta árs. „Það er ágætur samhljómur í þingheimi núna,“ segir Haraldur og á von á að þriðja umræða um fjárlögin hefjist um níuleytið í kvöld.
„Við þurfum að ljúka lífeyrisfrumvarpinu áður en við ljúkum fjárlögunum. Þau hafa bein áhrif þannig að það verður einhver snyrting milli annarrar og þriðju umræðu vegna þessa og síðan eru alltaf einhverjar ástæður fyrir leiðréttingar.“
Hann segir engan ágreining þá vera um fjáraukalögin og hann eigi ekki von á neinu óvæntu þar.
Vinstri græn lögðu þó fram breytingatillögur við tekjufrumvörpin í dag til að mynda um komugjöld á ferðamenn, en þær voru allar felldar með mótatkvæðum eða hjásetu annarra flokka utan Pírata.
„Það var aðeins spenna í loftinu í morgun,“ segir Haraldur þegar hann er spurður hvort þetta útspil hafi valdið einhverjum pirringi. „En eins og formenn annarra flokka sögðu þá skiptir samstaða meira máli núna. Þessar tillögur voru felldar og ekkert meira um það að segja.