Fjárhúsið í Betlehem var vettvangur friðsamlegrar fjölmenningar með skilaboð til okkar í nútímanum um eðli sannrar fjölmenningar. Þetta sagði Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðaprestakalli, í predikun sinni í dag. Vísaði hún til þess að vitringarnir hefðu komið sem útlendingar ríðandi á úlföldum inn í söguna um jólaguðspjallið.
„Þeir trúa ekki á Guð heldur lesa þeir í stjörnurnar. Þeirra leið er önnur en hinna en líka þeir komast á leiðarenda og andi Guðs býr í þeim. Hafandi hitt Heródes átta þeir sig á illsku hans og eftir bendingu í draumi fara þeir aðra leið út úr borginni og láta hann ekki vita um dvalarstað barnsins,“ segir í predikuninni og bendir Jóna þar á hvernig mismunandi menningarheimar hafi komið saman á góðan hátt.
Ástandið í Aleppo og Sýrlandi var Jónu einnig ofarlega í huga í predikuninni. Þá kallar hún eftir að fólk vakni upp frá sofandi tímum, meðal annars í ljósi leiðtoga sem hún líkir við Heródes og loftslagsbreytinga sem muni koma niður á komandi kynslóðum.
„Við lifum á sofandi tímum. Aldrei hafa bendingarnar og skilaboðin verið fleiri. En við treystum okkur ekki til að vakna. Aldrei hefur vitneskjan verið skýrari. En við viljum ekki rumska og sjá að í hönd fara víðtækustu og hörmulegustu barnamorð allrar sögu. Mannkyn með vestræna menningu í fararbroddi berst um í fastasvefni og kallar yfir sig leiðtoga sem ekkert sjá, Heródesa sem einskis svífast. Og það flókna og skelfilega er sú staðreynd að börnin í Aleppo og öll hin sem nú lifa þjáningar vegna andvaraleysis okkar eru ekki þau einu. Við lifum á sofandi tímum sem eru í óðaönn að svíkja og yfirgefa ófæddar kynslóðir. Ófæddar kynslóðir munu lifa í skugga loftslagsbreytinga af mannavöldum af því að við viljum ekki að vakna,“ segir Jóna og bendir á að Jesúbarnið hafi fæðst á röngum stað við ranglátar aðstæður, en að fullorðna fólkið í lífi þess hafi haldið vöku sinni.