Björgunarsveitarmenn í Vík í Mýrdal voru kallaðir út klukkan átta í morgun þegar um 40 bílar sátu fastir á Reynisfjalli vegna ófærðar. Flestir ökumenn voru erlendir ferðamenn á bílaleigubílum og meirihluti þeirra frá Asíu. „Þeir voru illa búnir og flestir eingöngu í sparifötum. Margir þeirra höfðu ekki séð snjó áður,“ segir Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja, í samtali við mbl.is. Færðin var og er ekki góð á svæðinu. Síðustu bílar voru losaðir rétt fyrir hádegi.
„Veðrið fer hratt versnandi,“ segir Orri. Veginum var lokað meðan á björgunaraðgerðum stóð og var opnaður á ný eftir það og ruddur. Ferðaveður á svæðinu er að versna, að sögn Orra. Björgunarsveitarmenn áttu sjálfir í talsverðum erfiðleikum með að athafna sig á svæðinu vegna snjóþunga.
RÚV greindi fyrst frá.