Það þarf að fylgja betur eftir þeim úrræðum sem börnum er vísað í þegar tilkynnt er um vímuefnaneyslu foreldrar þeirra til barnaverndar. Erfitt reyndist að kanna hver staða foreldra og barna þeirra var sem höfðu sex árum áður verið tilkynnt til barnaverndar. Þetta kemur fram í meistararitgerð Elísu Óðinsdóttur í félagráðgjöf við Háskóla Íslands sem nefnist, Afdrif foreldra sem hafa verið tilkynntir til barnaverndar vegna vímuefnavanda. Leiðbeinandi var Jóna Margrét Ólafsdóttir.
Markmiðið var að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum: Hver er staða þessara foreldra með tilliti til úrvinnslu Barnaverndar Reykjavíkur og bata frá vímuefnavanda? Hver er staða þessara foreldra og barna er varðar lífsgæði og virkni? Hver er íhlutun barnaverndar í málum foreldranna annars vegar og barna þeirra hins vegar. Elísa bendir á að engar rannsóknir hafa verið gerðar á því hver staða þessa fólks er eftir að mál þeirra lýkur með formlegum hætti.
„Það kom mér á óvart hversu fáa foreldra ég náði í,“ segir Elísa spurð um helstu niðurstöður ritgerðarinnar. Samkvæmt málaskrá barnaverndar Reykjavíkur skoðaði hún 59 tilkynningar frá árinu 2010. Samkvæmt barnaverndarlögum var alvarleiki þessara mála með þeim hætti að það þurfti að vinna frekar með fjölskyldunni. Þess ber að geta að tilkynnt var um mun fleiri börn þetta ár vegna vímuefnavanda foreldra.
Í ljós kom að foreldrarnir voru 43 talsins eftir að rýnt hafði verið í þessi 59 mál. Af þeim gat Elísa haft samband við 20 og 14 af þeim voru tilbúnir að svara. Spurningalisti var lagður fyrir þátttakendur í gegnum síma og var svarhlutfall 32,6% eða 14 foreldrar af 43. Hátt hlutfall hópsins var ekki með skráðan síma, hvorki hjá barnavernd né símafyrirtækjum en samkvæmt þjóðskrá höfðu nokkrir flutt til útlanda.
Í þessum málum var eingöngu hefðbundnum úrræðum barnaverndar beitt. Lögum samkvæmt þurfti barnavernd að íhlutast í þessum málum vegna alvarleika þeirra. Í úrræðunum fékk fólk meðal annars aðstoð við uppeldi, því veitt ráðgjöf og börn fóru í viðtal hjá sálfræðingi. „Lágt hlutfall af þessum foreldrum var vísað í áfengis- og vímuefnameðferð. En við vitum samt ekki hversu margir fóru raunverulega í meðferð,“ segir hún og vísar í að engin gögn sé að finna um það.
Í flestum tilvikum höfðu börnin farið í tímabundið fóstur en voru komin aftur til foreldra sinna. „Hvort það er gott eða slæmt er ekki gott að segja til um,“ segir hún og vísar til þess að engin vitneskja er innan kerfisins um hvernig fólkinu vegnar í dag eftir að málin komu upp. Hún bendir á að í ljósi niðurstaðna á þessari rannsókn þarf tvímælalaust að bæta eftirfylgni með þessum málum.
„Flestir sem ég talaði við töldu sig ekki vera eiga við vímuefnavanda að stríða og hafi aldrei gert. Flestir sögðust samt neyta áfengis í dag,“ segir Elísa. Allir þátttakendur voru sammála um að lífsgæði þeirra hefðu batnað frá árinu 2010 og sögðu ríflega 80% félagslega stöðu sína góða Meirihlutinn sagðist búa við góða heilsu og voru nánast allir þátttakendur jákvæðir spurðir um framtíðina. Í þessu samhengi vísar hún til að atvinnu- og húsnæðisstaða þátttakenda hafi batnað en þátttakendur eru samt enn í hópi þeirra fjölskyldna sem eiga í hættu á að falla undir sárafátækt.
Þegar foreldrarnir voru spurðir hvort aðgerðir barnaverndar hefðu hjálpað á einhver hátt sögðu flestir að svo hafi ekki verið. „Það er líka umhugsunarvert,“ segir Elísa.