Þriggja bifreiða árekstur varð í brekkunni niður að Vík í Mýrdal í morgun. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi var fjölmennt í hverri bifreið og voru allir hlutaðeigandi erlendir ferðamenn. Farþegar og ökumenn voru fluttir til nánari aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vík en meiðsl voru ekki teljandi. Þá fóru þrjár bifreiðar til viðbótar út af veginum við Vík í dag.
Mikil hálka er á vegum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi, sérstaklega í nágrenni og austan Víkur í Mýrdal. Lögregla beinir þeim tilmælum til vegfarenda að gefa sér tíma til ferðalaga og fara ekki af stað á vanbúnum bifreiðum. Búast má við að veður versni eftir því sem líður á daginn.