Búið er að aflýsa öllu flugi innanlands í dag vegna veðurs. Í veðurspá Vegargerðarinnar er greint frá því að öflug hitaskil gangi yfir landið í dag með staðbundnu roki eða jafnvel ofsaveðri á Vestur- og Norðvesturlandi fram yfir hádegið en á Norðurlandi frá Húnaflóa austur yfir Eyjafjörð um miðjan dag.
Þá verði foráttuhvasst á fjallvegum vestanlands, s.s. Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Laxárdalsheiði, Steingrímsfjarðarheiði og á sunnanverðum Vestfjörðum. Hefðbundinn stormur, 18-23 m/s, verður á Hellisheiði, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði.
Skilunum fylgja talsverð rigning og hlýindi og má búast við vexti í ám og lækjum, og einnig mikilli snjóbráð. Á vef Veðurstofunnar er varað við hættu á vatnsaga og krapa- og aurflóðum úr giljum og rásum í fjalllendi. Einnig megi búast við talsverðum vatnavöxtum í ám sunnan og vestan til á landinu.
Í kvöld snýst í suðvestanátt og kólnar hratt með éljum eða snjókomu og um miðnætti má búast við hríð á fjallvegum vestan til á landinu frá Hellisheiði norður að Vatnsskarði og Öxnadalsheiði.