„Þetta er mjög alvarlegt flugatvik sem við erum enn að rannsaka,“ segir Ragnar Guðmundsson, hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa í samtali við mbl.is. Hinn 19. október síðastliðinn flaug farþegaþota Icelandair óeðlilega nálægt jörðu í vonskuveðri í aðflugi að Keflavíkurflugvelli. Nefndin er enn að rannsaka flugatvikið.
Greint var fyrst frá málinu á RÚV.
Isavia tilkynnti rannsóknarnefnd samgönguslysa um atvikið daginn eftir. Nefndin kallaði strax eftir gögnum. „Við erum búin að safna fullt af upplýsingum og erum að púsla atburðarásinni saman,“ segir Ragnar. Spurður hvort lokið sé að safna öllum göngum segir hann svo ekki vera, eins getur hann ekki staðfest hvenær nefndin skilar skýrslu um málið.
Ekki liggur fyrir hvað olli því að vélin lækkaði flugið um fimm kílómetrum frá flugbrautinni, eins og fram kemur í frétt RÚV.
Flugvélin var rétt við golfvöllinn Hólmsvöll í Leiru á Suðurnesjum þegar hún lækkaði flugið og var því ekki yfir byggð.