Skapa hættu þegar þeir gefa hestunum

Mikið er um að ferðamenn stoppi og gefi hestum á …
Mikið er um að ferðamenn stoppi og gefi hestum á ferð sinni og skapi með því umferðarhættu og valdi dýrunum jafnvel skaða. Ljósmynd/Margeir Ingólfsson

Skilti sem Margeir Ingólfsson, hrossabóndi á Brú í Bláskógarbyggð setti upp við hrossagerði sitt á aðfangadag hefur vakið nokkra athygli, en þar bannar hann fólki að klappa eða gefa hestum sínum. Margeir segir skiltið ekki sett upp að ástæðu lausu, því mikið sé um að ferðamenn og jafnvel heilu rúturnar stoppi til að klappa og gefa hestum hans.

„Við erum að rækta reiðhross og hrossin verða einfaldlega óþolandi frek og leiðinleg þegar það er stöðugt verið að klappa þeim og gefa,“ segir Margeir í samtali við mbl.is, en hann vakti athygli á skiltinu á Facebook-síðu sinni. „Þetta er sambærilegt því að það kæmu 2-300 manns á dag og færu að leika við barnið þitt. Það yrði fljótt óalandi og óferjandi.“

Margeir bendir á að þá skapi það hættu þegar ferðmenn, hvort sem eru á bílaleigubílum eða rútum, stoppa í stórum hópum á þjóðveginum til að gefa hestunum.

Getur verið lífshættulegt fyrir hrossin

Hestar hafi heldur ekki gott af að fá brauð og hvað annað sem ferðamönnum dettur í hug að gefa þeim í þessum mæli, enda hafi þeir viðkvæman meltingarveg.

„Meltingarvegurinn á þeim einfaldlega ræður ekki við að heilu rúturnar með nokkur hundruð manns á dag séu að gefa þeim brauð og ýmisleg annað sem ferðamenn finna í rútunum.  „Þetta getur verið lífshættulegt fyrir hestana og ég veit um dæmi þess að hestar hafi drepist úr hrossasótt.“

Margeir nefnir sem dæmi að fæstir væru sáttir við að börnum þeirra eða gæludýrum væri gefið hvað sem er að borða að þeim forspurðum.

Spurður hvers vegna hann sé ekki með hestana annars staðar, segist hann vera með land sem liggur að þjóðveginum og að þetta sé einfaldlega sá staður þar sem hann geti sjálfur sinnt hestunum hvað best yfir vetrartímann.

Verða frekir og yfirgangssamir

Hestarnir geti líka orðið hættulega ferðamönnum af allri athyglinni. „Ég hef sjálfur orðið að fella tryppi hjá mér sem hafa verið orðin svo yfirgangssöm og frek af athyglinni og matargjöfunum að ég sá ekki fram á að geta tamið þau og nýtt eins og til stóð,“  segir Margir. Hestarnir geti til að mynda farið bíta og slást um matargjafirnar. 

„Virðingaleysi þeirra gagnvart manninum verður algjört, þegar það er verið að gera þau að dekurdýrum í staðin fyrir þau reiðhross sem þau eiga að vera í framtíðinni.“

Margeir setti skiltið upp á aðfangadagsmorgun. Hann segir það hafa staðið lengi til og hann hafi kvartað undan ágangi ferðaþjónustufyrirtækja í fyrra. Þá hafi ágangurinn minnkað mikið og hann hafi átt góðar samræður við marga fararstjóra og bílstjóra sem hafi fullan skilning á málinu.

Engu að síður hafa að meðaltali verið um 5-6 bílar stopp hjá hestum hans frá því að skiltið var sett upp.

Hestastopp óskráður hluti af Gullna hringnum

„Flestir, líkt og í öðrum stéttum, eru úrvalsfólk og virða þetta, en svo eru svartir sauðir inn á milli,“ segir hann og kveðst í gærmorgun hafa átt orðaskipti við fararstjóra sem sagði fyrirtækin ekki þurfa leyfi til að gefa hrossum og að þeir tækju með sér brauð í hverja ferð.

„Þá sagði annar við mig í fyrra að hestastopp hefði verið óskráður hluti af Gullna hringnum í mörg ár sem að fararstjórar réðu hvort þeir tækju.“

Það hljóti óneitanlega að vekja upp spurningar hvort þeir hestaeigendur eigi þá ekki hlutdeild í sætagjaldinu.

„Annars hef ég hef verið að hugsa hvað sé hægt að gera við þessu, því að ég hef fullan skilning á því að ferðamönnum langi til að sjá íslenska hestinn,“ segir Margeir. „Mig langar að bregðast við þessu og koma upp aðstöðu og gera bílaplan þannig að ferðmenn geti lagt þar og vera þar með hross sem má klappa og þá get ég sjálfur verið með fóður sem má gefa þeim. Ég hefði áhuga á að vita hvernig ferðaþjónustuaðilar bregðast við og hvort þeir vilji nýta sér svona þjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka