Íslendingar eru nú spurðir af bandarískum yfirvöldum um reikninga sína á samfélagsmiðlum, svo sem Facebook og Twitter, hyggist þeir ferðast til Bandaríkjanna.
Ný breyting á löggjöf vestanhafs veldur þessu, en hún á við um einstaklinga frá löndum sem fá undanþágu frá vegabréfsáritun, og taka þannig þátt í svokölluðu „Visa waiver program“.
Ísland er eitt þeirra 38 landa.
Frétt mbl.is: „Þetta er óheillaþróun“
Spurningunni, sem varpað er fram við útfyllingu svokallaðs ESTA-eyðublaðs, er ætlað að koma auga á mögulegar hryðjuverkaógnir, en hefur mætt gagnrýni tæknifyrirtækja og þeirra sem vilja standa vörð um friðhelgi einkalífsins.
Spurningin felur í sér flettiglugga yfir fjölda samfélagsmiðla, þar sem hægt er að velja einstakan miðil áður en maður skrifar svo nafn síns reiknings þar við hlið. Ekki er þó nauðsynlegt að svara henni, að því er fram kemur á eyðublaðinu.
Bandaríska ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun 19. desember og fór nýja eyðublaðið í loftið daginn eftir, samkvæmt umfjöllun Politico.