Afsögn, kosningar og nýr forseti

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og Bjarni Bene­dikts­son til­kynna að þing­kosn­ing­um verði …
Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og Bjarni Bene­dikts­son til­kynna að þing­kosn­ing­um verði flýtt og þær haldn­ar haustið 2016. mbl.is/Golli

Mikið gekk á í íslenskum stjórnmálum á árinu sem er að líða. Tvennar kosningar fóru þannig til að mynda fram, fyrst forsetakosningar og síðan þingkosningar. Forsætisráðherra Íslands sagði af sér, þingkosningum var flýtt og forseti landsins, sem setið hafði að Bessastöðum í tvo áratugi, lét af embætti. Hér verður farið yfir það helsta sem stóð upp úr í stjórnmálunum á árinu.

Þegar árið 2016 gekk í garð hafði ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verið við völd í rúm tvö og hálft ár. Ríkisstjórnin hafði góðan þingmeirihluta á bak við sig eða 38 þingmenn og hafði meðal annars gripið til róttækra aðgerða til þess að lækka húsnæðisskuldir landsmanna og undirbúa afnám fjármagnshaftanna.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. mbl.is/Ómar

Fátt virtist benda til annars en að ríkisstjórnin ætti eftir að sitja út kjörtímabilið sem ljúka átti að öllu óbreyttu vorið 2017. Það breyttist hins vegar þegar greint var frá því í fjölmiðlum í byrjun apríl að eiginkona Sigmundar Davíðs ætti háar fjárhæðir í félaginu Wintris á Bresku jómfrúareyjum, fjármuni sem hún hafi erft fyrir bankahrunið, og  ennfremur kröfu á föllnu íslensku bankana.

Forsætisráðherra segir af sér embætti

Sigmundur Davíð var meðal annars sakaður um að hafa leynt eignarhaldi konu sinnar á Wintris, hafa verið báðu megin við borðið í samskiptum við kröfuhafa bankanna og að hafa átt helming félagins um tíma. Sigmundur vísaði þessu alfarið á bug á þeim forsendum að honum hefði ekki verið skylt að greina frá fjármálum konu sinnar og að hann hefði ekki komið að samskiptum við fulltrúa kröfuhafa.

Stjórnarandstaðan krafðist þess að Sigmundur segði af sér sem forsætisráðherra og að ríkisstjórnin færi frá. Fjölmenn mótmæli fóru ennfremur fram á Austurvelli í Reykjavík. Þá var þess krafist að þingkosningum yrði flýtt og þær haldnar strax um vorið. Svo fór að lokum að Sigmundur sagði af sér og Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók við embættinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kveður fréttamenn eftir að hafa átt fund …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kveður fréttamenn eftir að hafa átt fund með forseta Íslands eftir að Wintris-málið kom upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tilkynntu í kjölfar afsagnar Sigmundar að þingkosningum yrði flýtt og stefnt að því að þær færu fram haustið 2016. Ekki var hins vegar gefin upp nákvæm dagsetning í þeim efnum. Það færi eftir því hvernig gengi að klára ákveðin mál ríkisstjórnarinnar. Næstu mánuði var ítrekað kallað eftir því að kjördagur yrði ákveðinn.

Guðni Th. Jóhannesson nýr forseti Íslands

Samhliða þessum atburðum voru forsetakosningar í uppsiglingu. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafði lýst því yfir að hann gæfi ekki kost á sér áfram í embætti. Margir veltu fyrir sér forsetaframboði og ýmsir tilkynntu formlega um framboð. Skömmu eftir afsögn Sigmundur Davíðs tilkynnti Ólafur Ragnar að hann ætlaði að gefa áfram kost á sér í forsetaembættið.

Ólafur vísaði þar stöðunnar í stjórnmálunum og áskoranir um að bjóða upp á ákveðinn stöðugleika í þeim efnum. Skömmu áður hafði Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðiprófessor farið að velta fyrir sér forsetaframboði fyrir alvöru í kjölfar þess að hann kom fram í Ríkisútvarpinu sem álitsgjafi vegna stjórnmálaástandsins í kjölfar Wintris-málsins. Fór svo að hann lýsti yfir framboði.

Guðni Th. Jóhannesson fagnar sigri í forsetakosningunum ásamt eiginkonu sinni …
Guðni Th. Jóhannesson fagnar sigri í forsetakosningunum ásamt eiginkonu sinni Elizu Reid. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn átti eftir að draga til tíðinda í aðdraganda forsetakosninganna. Davíð Oddsson, annar ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, lýsti yfir forsetaframboði í byrjun maí. Daginn eftir dró Ólafur Ragnar framboð sitt til baka. Svo fór að lokum að Guðni var kjörinn sjötti forseti Íslands með 39,1% fylgi. Níu voru að lokum í framboði en yfir tuttugu manns tilkynntu framboð.

Minnkandi fylgi og deilur í röðum Pírata

Píratar hófu árið 2016 með 35-38% fylgi samkvæmt skoðanakönnunum en fylgi þeirra hafði aukist mjög árið á undan.  Hins vegar lækkaði fylgið mjög í mars-apríl og fór niður í kringum 25%. Fylgið hélt síðan áfram að lækka og mældist í kringum 20% fram að þingkosningunum í lok október. Fór svo að lokum að Píratar fengu 14,5% þegar talið var upp úr kössunum í kjölfar kosninganna.

Margir áttu von á því að Píratar fengu meira fylgi og ekki síst fjölmargir erlendir fjölmiðlamenn sem komu til landsins til að fjalla um gengi flokksins í kosningunum. Miklar deilur komu upp í röðum Pírata á árinu sem kunna að hafa átt þátt í fylgistapinu. Deilurnar snerust bæði um samskiptavandamál í þingflokki Pírata og vinnubrögð vegna prófkjörs flokksins í Norðvesturkjördæmi.

Píratar á fundi.
Píratar á fundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Deilurnar snerust í báðum tilfellum um völd. Deilurnar snerust þannig meðal annars um það hvort Píratar hefðu í raun formann þrátt fyrir að formlega væri sú staða ekki til. Var Birgitta Jónsdóttir, þingmaður flokksins, sökuð um að taka sér slíkt vald þrátt fyrir að hafa það ekki. Meðal annars til þess að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöður prófkjörsins. Birgitta vísaði því alfarið á bug.

Farið gegn formanni Framsóknarflokksins

Deilur áttu sér einnig stað í Framsóknarflokknum í kjölfar Wintris-málsins. Þær deilur snerust einkum um stöðu Sigmundar Davíðs sem formanns flokksins. Sigmundur Davíð sigraði Höskuld Þórhallsson í oddvitaslag flokksins í Norðausturkjördæmi sem varð til þess að Höskuldur hætti í stjórnmálum. Kallað var eftir því að boðað yrði til flokksþings fyrir þingkosningar og var orðið við því.

Skorað var á Sigurð Inga að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins gegn Sigmundi Davíð. Sigurður sagðist lengi vel ekki ætla að gefa kost á sér og hafði raunar lýst því yfir að hann færi aldrei gegn Sigmundi en tilkynnti síðan formannsframboð viku fyrir flokksþingið. Sigurður sigraði Sigmund Davíð með 52,7% atkvæða gegn 46,8%. Lilja Alfreðsdóttir var kjörin varaformaður.

Sigurður Ingi Jóhannsson ávarpar flokksþing Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson ávarpar flokksþing Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Deilur geisuðu einnig innan Samfylkingarinnar. Krafist var þess í byrjun ársins að Árni Páll Árnason, þáverandi formaður flokksins, léti af embætti vegna slæms fylgis og boðað yrði til landsfundar einkum í því skyni að skipta um formann. Fylgi flokksins mældist þá í kringum 10%. Var haldinn landsfundur og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, kjörin formaður.

Stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar

Tilkynnt var í ágúst að þingkosningar færu fram 29. október. Margt þótti benda til þess að erfiðlega gæti gengið að mynda ríkisstjórn að þeim loknum. Ljóst þótti að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ætti ekki framhaldslíf eftir kosningarnar og ennfremur að ekki yrði mögulegt að þeim loknum að mynda tveggja flokka meirihlutastjórn. Þrjá flokka þyrfti allavega til.

Flestir reiknuðu með að næsta ríkisstjórn yrði vinstristjórn. Píratar boðuðu til viðræðna annarra flokka en ríkisstjórnarflokkanna skömmu fyrir kosningar um ríkisstjórnarsamstarf eftir þær. Kjósendur ættu rétt á að vita fyrirfram hverjar áherslur nýrrar stjórnar yrðu. Þannig yrði komist hjá því að samið yrði um annað í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar en boðað hafi verið fyrir þær.

Forystumenn fjögurra flokka: Birgitta Jónsdóttir, Óttarr Proppé, Oddný Harðardóttir og …
Forystumenn fjögurra flokka: Birgitta Jónsdóttir, Óttarr Proppé, Oddný Harðardóttir og Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Golli

Viðræður Pírata, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar skiluðu sér ekki í stjórnarsáttmála. Þess í stað var lýst yfir vilja til samstarfs eftir kosningarnar. Kosningarnar skiluðu flokkunum hins vegar ekki samanlagt meirihluta þingsæta á Alþingi líkt og skoðanakannanir bentu til að yrði raunin. Skipti þar mestu verulegt fylgistap Pírata.

Hrun Samfylkingarinnar og afsögn formannsins

Þrátt fyrir að hafa mánuðum saman á síðasta kjörtímabili mælst stærsti flokkur landsins urðu Píratar að lokum að sætta sig við þriðja sætið á eftir Sjálfstæðisflokknum og VG. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi og var áfram stærsti flokkurinn með 29%. VG kom næst með 15,9% og bætti einnig við sig. Eftir sem áður nær þrefölduðu Píratar fylgi sitt frá því í þingkosningunum 2013.

Viðreisn bauð fram í fyrsta sinn og hlaut 10,5% en Framsóknarflokkurinn missti mikið fylgi frá fyrri kosningum og fékk 11,5%. Hafa ber þó í huga að flokkurinn jók stórlega fylgi sitt í kosningunum 2013. Björt framtíð hélt nokkurn veginn í sitt kjörfylgi þrátt fyrir að margir væru búnir að afskrifa flokkinn nokkru fyrir kosningar í ljósi skoðanakannana. Fylgi Samfylkingarinnar hins vegar hrundi.

Oddný G. Harðardóttir tilkynnir fréttamönnum um afsögn sína á Bessastöðum.
Oddný G. Harðardóttir tilkynnir fréttamönnum um afsögn sína á Bessastöðum. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samfylkingin hlaut 12,9% fylgi í þingkosningunum 2013 sem var langminnsta fylgi sem flokkurinn hafi fengið í kosningum á landsvísu. Fylgi flokksins í fyrri þingkosningum var á bilinu 26,8% - 31%. Fylgið í kosningunum í október reyndist hins vegar einungis 5,7%. Eftir kosningarnar sagði Oddný af sér sem formaður Samfylkingarinnar og varaformaðurinn, Logi Már Einarsson, tók við.

Stjórnarmyndunartilraunir enn ekki skilað árangri

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ræddi við forystumenn stjórnmálaflokkanna sem fengu fulltrúa kjörna á Alþingi mánudaginn eftir kosningar og ákvað í framhaldinu að veita Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, stjórnarmyndunarumboð. Bjarni reyndi að mynda ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð en það reyndist hins vegar ekki mögulegt.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, fékk umboðið næst og reyndi að mynda fimm flokka ríkisstjórn VG, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar sem einnig rann út í sandinn. Píratar gerðu einnig tilraun til þess að mynda slíka stjórn en allt fyrir ekki. Slógu Píratar meðal annars af stefnumál sem boðað hafði verið fyrir kosningar að væru ófrávíkjanleg til þess að mynda stjórn.

Katrín Jakobsdóttir, Logi Már Einarsson, Benedikt Jóhannesson, Óttarr Proppé og …
Katrín Jakobsdóttir, Logi Már Einarsson, Benedikt Jóhannesson, Óttarr Proppé og Birgitta Jónsdóttir ræða stjórnarmyndun fimm flokka. mbl.is/Árni Sæberg

Fleiri þreifingar áttu sér stað. Þar á meðal á milli Sjálfstæðisflokksins og VG. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir hefur enn ekki verið mynduð ný ríkisstjórn tæpum tveimur mánuðum eftir þingkosningarnar. Þing var engu að síður kallað saman einkum til að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár sem tókst að ljúka fyrir jól í verulegri sátt. Hvað stjórnarmyndun varðar er enn óvíst hver næsta ríkisstjórn verður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert