Indverji vill land á Borgarfirði eystra

Börn að leik á Borgarfirði eystra.
Börn að leik á Borgarfirði eystra. mbl.is/Rax

Hreppsnefnd Borgarfjarðar eystra mælir með því að lóð úr jörðinni Geitlandi verð seld indverska fjárfestinum Pawan Mulkikar, sem áformar að reisa þar verksmiðju til vatnsátöppunar.

Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar, sem kom saman 19. desember. Fréttastofa RÚV greindi fyrst frá þessu.

Á fundi sínum tók hreppsnefndin fyrir erindi frá lögmannsstofunni Logos, þar sem hún óskar eftir því að sveitarfélagið mæli með sölu á lóð jarðarinnar Geitlands til Mulkikar. Samþykkti hún einróma að veita meðmælin.

Einn hreppsnefndarmanna, Arngrímur Viðar Ásgeirsson, meðeigandi Mulkikar í fyrirtækinu Vatnswork Iceland ehf. og verkefnisstjóri þess, vakti þó athygli á mögulegu vanhæfi sínu, sem var einnig samþykkt einróma að því er fram kemur í fundargerðinni.

Mikil þörf á heilsársstörfum

Mulkikar kom fyrst á Borgarfjörð fyrir þremur árum sem ferðamaður, í fimm daga gönguferð. Hreifst hann af náttúrunni og samfélaginu, og hefur síðustu átján mánuði unnið í samvinnu við heimamenn að framþróun þessa verkefnis, og komið reglulega til Íslands.

„Það má segja að þetta sé í grunninn byggðaverkefni sem að sjálfsögðu mun í náinni framtíð sýna arðsemi,“ sagði Arngrímur Viðar í samtali við Morgunblaðið í nóvember.

„Það er mikil þörf á því að skapa heilsársstörf hérna hjá okkur því ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn er of árstíðabundið til að hægt sé að lifa af því.“

Að hans sögn stendur til að framleiða hágæða vöru sem ætluð er á dýrari markað. „Við ætlum að byrja rólega, einn gámur í einu til að byrja með. Það stendur ekki til að metta heiminn.“

Fyrirhuguð staðsetning verksmiðjunnar.
Fyrirhuguð staðsetning verksmiðjunnar.

Vatnið flutt til Reyðarfjarðar

Ef áætlanir ganga eftir gætu í upphafi orðið til 6-10 heilsársstörf í litlu samfélagi sem Borgarfjarðarhreppur er. Íbúar eru skráðir 124 en 80-90 manns hafa þar vetursetu. 

Gera þarf breytingu á aðalskipulagi Borgarfjarðarhrepps og hefur hún verið auglýst.

Áætlað er að byggja að hámarki 2.000 fermetra vatnsátöppunarverksmiðju á einni hæð. Flutningaskip geta ekki lagt að bryggju í Borgarfirði, svo vatnið verður flutt til útskipunar á Reyðarfirði, sem er rúmlega 100 kílómetra leið. 

Vegagerðin þjónustar Borgarfjörð sex daga í viku yfir veturinn og því verða væntanlega fáir dagar á vetrum sem leiðin yrði ófær vegna snjóa.

Frétt mbl.is: Áforma vatnsverksmiðju

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert