Sjúkraflugvél með sjúkling frá Höfn í Hornafirði gat ekki lent á Reykjavíkurflugvelli þar sem neyðarflugbraut 24 er lokuð fyrir flugumferð og þurfti því að fljúga með hann á sjúkrahúsið á Akureyri.
Flugvélin gat hvorki lent á Reykjavíkurflugvelli né í Keflavík vegna mikils SV-hvassviðris. Sjúklingurinn er nú á Akureyri. Ekki fengust upplýsingar um hvort reynt verði að fljúga með hann á Landspítalann í Reykjavík þegar lægir né hvernig líðan hans er. Útkallið var í fyrsta forgangi og hefði sjúklingurinn þurft að komst undir læknishendur á LSH.
„Þetta er í fyrsta skipti sem neyðarbrautin lokast allan daginn vegna þessarar vindáttar. Þetta er grafalvarlegt. Okkur gremst að þetta skuli gerast því við höfum alltaf bent á að í þessari vindátt þarf neyðarbrautin að vera opin fyrir sjúkraflugi,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, við mbl.is. Hann bendir á að eina í stöðunni sé að Alþingi grípi til aðgerða og opni brautina.
Stjórn Flugmálafélag Íslands sendi frá sér tilkynningu vegna stöðunnar. „Ljóst er að varnaðarorð flugstjóra og sérfræðinga í flugmálum áttu við full rök að styðjast og að stjórnmálamenn hafa gert alvarleg mistök með því að loka neyðarbrautinni.
Nú skiptir miklu máli að bregðast hratt við,“ segir í tilkynningunni.
Skorað er á stjórnvöld að opna brautina á ný og jafnframt er krafist aðgerða tafarlaust „áður en það verður um seinan og án þess að það hafi þá kostað mannslíf.“