„Brautin hefur ekkert breyst“

Sjúkraflugvél á Reykjavíkurflugvelli. Mynd úr safni. Ekki koma oft upp …
Sjúkraflugvél á Reykjavíkurflugvelli. Mynd úr safni. Ekki koma oft upp aðstæður þar sem ekki er hægt að nota annaðhvort norður-suður- eða austur-vesturbrautina. mbl.is

Suðvesturbraut Reykjavíkurflugvallar er í starfhæfu ásigkomulagi, en það er innanríkisráðuneytisins að heimila opnun brautarinnar. Þetta segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia. „Brautin hefur ekkert breyst frá því að henni var lokað,“ segir hann.

Eftir að innanríkisráðuneytið óskaði eftir lokuninni þá telst suðvesturbrautin ekki lengur vera flugbraut lengur.

„Ef innanríkisráðuneytið hefði hringt og beðið um að hún væri opnuð aftur, þá hefur hún ekkert breyst frá því sumar,“ segir Guðni og kveður brautina vera í starfhæfu ástandi.

Frétt mbl.is: Fleiri tilfelli munu koma upp

Það sama á ekki við um flugbraut í Keflavík. Haft var eft­ir Þor­keli Ásgeiri Jó­hanns­syni, flug­stjóra hjá Mý­flugi, í gær að við ríkj­andi veðuraðstæður hefði verið hægt að lenda á suðvest­ur­braut­inni í Reykja­vík. Einnig hefði verið hægt að lenda á sams­kon­ar braut í Kefla­vík, sem lokað var fyr­ir nokkr­um árum vegna lít­ill­ar notk­un­ar.

„Flugbrautin í Keflavík er ekki nothæf. Það er ekki ljósabúnaður á henni og yfirborðið er lélegt,“ segir Guðni.

Myndi duga fyrir einstaka lendingu með léttum flugvélum

Innanríkisráðuneytið bað Isavia nú í haust um að taka saman minnisblað um kostnað við að koma brautinni í lag fyrir litlar innanlandsflugvélar. Settar voru upp þrjár mismunandi leiðir. Sú ódýrasta var metin á 280 milljónir, en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að flotmalbik sé sett yfir núverandi slitlag og einföldum  ljósabúnaði komið fyrir við brautina. „Það myndi duga fyrir einstaka lendingu með léttum flugvélum,“ segir Guðni og samsinnir að slík braut væri aðeins notuð sem neyðarbraut.

Samkvæmt áhættumati sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Isavia, þá koma ekki oft upp aðstæður þar sem ekki er hægt að nota annaðhvort norður-suður- eða austur-vesturbrautina.

„Þegar það er sterk suðvestanátt þá er stutt bil á milli þess að hægt sé að nota norður-suður eða austur-vestur brautina og upp í að ekkert sé hægt að fljúga. Það er síðan þröngur gluggi þar á milli þar sem hægt er að lenda á suðvesturbrautinni,“ segir Guðni og bætir við. „Það er bara þannig að ef maður fækkar flugbrautum, þá minnkar þjónustustigið.“

Ekki hafa borist svör frá Innanríkisráðuneytið við spurningum sem sendar voru á ráðuneytið um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert