Ekki hefur verið unnt að senda vörur í verslunina í Norðurfirði í Árneshreppi síðan á Þorláksmessu en vegna veðurs hefur ekki verið hægt að lenda á flugvellinum í Gjögri. Flogið er með allan póst- og vörur í Árneshrepp en þann 1. nóvember var öllum vöruflutningum hætt landleiðina.
„Það er öll mjólk búin og brauð og svona þannig það er frekar dapurt úrvalið hérna,“ segir Hulda Björk Þórisdóttir, verslunarstjóri Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði. Hulda átti von á vörum á þriðjudaginn en það hefur ekkert verið flogið. „Fólk bíður bara heima hjá sér og er ekkert að fara út í þessu veðri heldur.“
Frétt mbl.is: „Þýðir ekkert að væla“
Svipað hefur verið uppi á teningnum í Grímsey en þar er von á ferju með vörur í dag. Hreppsbúar geta þó hvorki stólað á flutninga land- né sjóleiðina þar sem allar vörur berast með flugi. Samkvæmt Vegagerðinni er vegurinn þungfær norður í Árneshrepp svo ekki er heldur hlaupið að því að keyra til Hólmavíkur eftir vörum.
Samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu Erni var aðeins eitt flug áætlað til Gjögurs síðan á Þorláksmessu en það átti að vera í fyrradag. Vegna veðurs varð ekkert af fluginu og hefur ekki tekist að fara síðan. Flugsamgöngur á landinu öllu hafa gengið brösulega í dag og undanfarna daga og hefur bæði áætlunar- og sjúkraflug farið úr skorðum.