Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, fer fram á afsökunarbeiðni til sín og eiginkonu sinnar, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, frá útvarpsstjóra vegna framgöngu Ríkisútvarpsins í tengslum við umfjöllun RÚV um Panama-skjölin.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag rekur Sigmundur Davíð kynni sín af Ríkisútvarpinu sem stjórnmálamaður en áður starfaði hann þar sem fjölmiðlamaður. Meðal annars segir Sigmundur fréttamann hafa kallað sig skíthæl í samtali sem þeir áttu vegna Icesave-samninganna á sínum tíma. Þá segir Sigmundur það vera ríkjandi viðhorf á RÚV að játa aldrei mistök.
Grein Sigmundar Davíðs, alþingismanns, er ítarleg eða alls sjö dálkar talsins. Hana er hægt að lesa í heild í Morgunblaðinu, blaðsíðu 26-27.
„Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem fylgist með umfjöllun um stjórnmál á hlutlægan hátt, að frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir átta árum síðan hefur hópur starfsmanna og verktaka í Efstaleiti 1 haft eitt og annað við mig og Framsóknarflokkinn að athuga umfram flesta (alla) aðra stjórnmálamenn og -flokka.
Þegar ég vísa til Ríkisútvarpsins, eða RÚV hér að neðan, er það gert til einföldunar. Mikilvægt er að taka fram að með því er ég síður en svo að vísa til allra starfsmanna stofnunarinnar enda hefur RÚV á að skipa mörgu af besta fólki sem ég hef kynnst í störfum mínum, fyrst sem starfsmaður Ríkisútvarpsins og svo sem stjórnmálamaður.
Innan Ríkisútvarpsins er þó hópur sem hefur sterkar skoðanir á pólitík og samfélagsmálum almennt og er ófeiminn við að sýna það í störfum sínum. Það væri synd að segja að umræddur hópur hafi haft samúð með áherslumálum mínum í stjórnmálum, svo ekki sé meira sagt. Þennan hóp hef ég kallað SDG-RÚV-hópinn eftir áhugasviðinu en læt sem fyrr segir nægja að tala um RÚV til einföldunar,“ segir meðal annars í grein Sigmundar Davíðs sem tiltekur nokkur dæmi orðum sínum til stuðnings.
Grein hans endar með þessum orðum:
„Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á einbeittan vilja til að standa skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu, þrátt fyrir að engu hafi verið haldið leyndu um hið erlenda félag og þrátt fyrir óþrjótandi vilja konu minnar til að fórna meiru fyrir samfélagið í stað þess að nýta sér neyð þess, hefur hún mátt þola að verða skotmark Ríkisútvarpsins og samverkamanna þess í þeim tilgangi að ná á mig höggi.
Við það var beitt aðferðum sem standast hvorki siðferðilegt, faglegt né lagalegt mat.
Því spyr ég útvarpsstjóra:
Eru þessi vinnubrögð samboðin þeirri stofnun sem þú stýrir og í samræmi við hlutverk hennar?
En ég spyr líka spurningarinnar sem við vitum líklega flest svarið við:
Ert þú reiðubúinn til að biðja mig afsökunar fyrir hönd Ríkisútvarpsins og ef ekki mig þá eiginkonu mína, konu sem átti svo sannarlega ekki skilið að fá þá meðferð sem hún hlaut af hálfu Ríkisútvarpsins á árinu 2016?“