Fleiri tilfelli muni koma upp

Sjúkraflug Mýflugs þurfti að fljúga með hjartasjúkling til Akureyrar í …
Sjúkraflug Mýflugs þurfti að fljúga með hjartasjúkling til Akureyrar í gærkvöldi eftir að ekki reyndist unnt að lenda á suðvesturhorninu. mbl.is/RAX

Sjúklingnum sem flogið var með á Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) í gærkvöldi, eftir að hvorki reyndist unnt að lenda á Reykjavíkur- né Keflavíkurflugvelli, heilsast ágætlega. Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, segir það þó bara tímaspursmál hvenær erfiðara tilfelli kemur upp.

Greint var frá því í gær að sjúkraflugvél Mýflugs, sem flytja átti sjúkling frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur, hafi verið flogið til Akureyrar vegna veðurs. Suðvestanstormur var á suðvesturhorni landsins og allt innanlandsflug lá niðri. Haft var eftir Þorkeli Ásgeiri Jóhannssyni, flugstjóra hjá Mýflugi að við ríkjandi veðuraðstæður hefði verið hægt að lenda á suðvesturbrautinni í Reykjavík, sem lokað var í sumar. Það gildi raunar líka um samskonar braut í Keflavík, sem lokað var fyrir nokkrum árum vegna lítillar notkunar.

Þurfti á sérhæfðri meðferð hjartasérfræðinga að halda

„Þetta er hjartasjúklingur sem hefur verið í sérhæfðri meðferð hjá hjartasérfræðingum fyrir sunnan,“ segir Sigurður. Upp hafi komið atvik sem bregðast þurfti við sem fyrst og því hafi fyrsti kostur verið að reyna að koma sjúklingnum til þeirra sérfræðinga sem þekkja hann best. „Það var hins vegar ekki hægt vegna veðurs, en líkt og fram kom í fréttum þá hefði verið hægt að lenda á þessari svo kölluðu neyðarbraut, sem er lokuð.“

Því hafi verið gripið til þess ráðs að fara með sjúklinginn til Akureyrar þar sem hjartasérfræðingar SAk sinntu honum í samráði við við hjartasérfræðinga hans fyrir sunnan. Sigurður segir ekki liggja fyrir hvort sjúklingurinn verði sendur suður til frekari meðhöndlunar þegar veður leyfir.

Sjúkraflug Mýflugs. Mynd úr safni. Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá …
Sjúkraflug Mýflugs. Mynd úr safni. Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi telur að við ríkjandi veðuraðstæður hefði verið hægt að lenda á suðvesturbrautinni í Reykjavík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Staðan önnur ef þörf hefði verið á hjartaþræðingu

„Í þessu tilfelli þá var hægt að veita meðferðina og eftirlitið sem hann þurfti í samráði við sérfræðinga.“ Sigurður segir þó að betra hefði verið ef sjúklingurinn hefði verið í höndum þeirra sem þekktu hann best. „Ef hann hefði hins vegar alfarið þurft á að halda þeirri sérfræðiaðstoð sem veitt er á Landspítalanum þá hefði hann verið mun verr staddur.“

Hann nefnir sem dæmi að ef viðkomandi hefði þurft á bráðahjartaþræðingu að halda að þá hefði staðan verið önnur. „Við erum ekki með hjartaþræðingar hér. Þá hefði annað hvort þurft að láta það eiga sig að þræða hann og reyna að finna aðra meðferð sem hugsanlega væri þá síðri fyrir sjúklinginn, eða þá að keyra með hann alla leið frá Höfn á Hornafirði, sem sennilega hefði tekið langan tíma og því líklega verið jafn slæmt fyrir sjúklinginn.“

Bara tímaspursmál hvenær eitthvað gerist

Sigurður segir engan í heilbrigðiskerfinu vilja ræða málefni einstakra sjúklinga, en það verði engu að síður að ræða stöðu þessara mála.

„Við skildum þetta samkomulag þannig að lokanir flugbrauta ættu ekki að koma til, nema það kæmi eitthvað sambærilegt í staðinn sem myndi tryggja öryggi og skilvirkni í sjúkraflutningum. Nú er búið að taka þetta fyrsta skref og það hefur ekkert sambærilegt komið í staðin,“ segir Sigurður og kveðst ekki vera að leita að blóraböggli. Upp sé hins vegar komin sú staða að það muni koma upp tilfelli þar sem lokun brautarinnar hefur þessi áhrif.  

„Við höfum ekkert í höndunum, hvorki nýjan flugvöll eða neinar aðrar aðgerðir þar sem komið er til móts við þetta. Það er bara tímaspursmál hvenær eitthvað gerist og við vitum það flest.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka