Skorað hefur verið á íslensk stjórnvöld að veita Færeyingum fjárstuðning vegna þess eignatjóns sem varð í óveðrinu í Færeyjum um jólin. „Nú er komið að okkur Íslendingum að sýna Færeyingum sama veglyndi og þeir hafa sýnt okkur,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum áskorunarinnar. Aftakaveður hefur verið í eyjunum en á annan í jólum höfðu borist um 350 tilkynningar um eignatjón.
Frétt mbl.is: 350 tilkynningar um eignatjón í Færeyjum
Í tilkynningunni segir að Færeyingar hafa staðið við bakið á Íslendingum af ýmsum tilefnum en nú sé komið að Íslendingum að leggja sitt af mörkum. „[M]á þar nefna fjársöfnun sem eyjaskeggjar stóðu fyrir í Vesmannaeyjargosinu, rausnarleg fjárframlög í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri og í Súðavík og lán á vildarkjörum í kjölfar hrunsins 2008,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Það eru þær Addy Steinarrs og Rakel Sigurgeirsdóttir sem standa að áskoruninni en hún var birt á Facebook-síðunni Færeyingar og Íslendingar eru frændur, í gær og hefur færslan fengið miklar undirtektir. Áskorunin var send á forseta Íslands og þá ráðherra sem enn eiga sæti á þingi þann 27. desember og á aðra þingmenn í gær en í samtali við mbl.is segir Addy að þær hafi enn ekki fengið nein viðbrögð frá stjórnvöldum.
„Við vorum að deila fréttum af óveðrinu í Færeyjum sem gekk yfir um jólin, aftakaveður og mikið um eignaskemmdir og það fóru strax að koma komment um það hvort að það væri ekki hægt að hjálpa eitthvað Færeyingum,“ segir Addy, spurð hvernig það kom til að þær sendu áskorunina.
„Það skín mjög skýrt í gegn á þessari síðu svona ákveðið bræðra- og systraþel í garð Færeyinga og einhversstaðar sá ég nú skrifað að Íslendingar litu gjarnan á Norðmenn sem frændur og Færeyinga sem bræður og systur, ég held að það sjáist svolítið á þessari síðu,“ segir Addy.