Vilja bjóða fólkið velkomið

Þórunn Ólafsdóttir formaður Akkeris.
Þórunn Ólafsdóttir formaður Akkeris. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Akkeri, samtök áhugafólks um starf í þágu flóttamanna, standa fyrir samverustund fyrir hælisleitendur á gamlárskvöld. Veislan verður haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur og geta hælisleitendur þar notið kvöldsins í góðum félagsskap.

Þórunn Ólafsdóttir, formaður Akkeris, segir í samtali við mbl.is að hugmyndin á bak við veisluna hafi kviknað á Grikklandi í sumar. Þá skipulagði Akkeri veislu í tengslum við Eid-hátíðina, sem er ein stærsta hátíð múslima. „Hún var alveg mögnuð og heppnaðist ótrúlega vel,“ segir Þórunn en þá tókst að safna nógu til að greiða fyrir veisluþjónustu og máltíð fyrir alla í flóttamannabúðunum í Grikklandi á einungis 48 klukkustundum.

Frétt mbl.is: „Í gær var enginn flóttamaður“

Allir dagar langir í biðinni

„Það er gott að fólk geti ekki bara gert sér glaðan dag, heldur að þau geti verið manneskjur í stutta stund. Allir dagar eru langir þegar þú ert að bíða eftir því að eitthvað gerist í þínum málum,“ segir Þórunn.

Hluti hælisleitenda dvelur í Víðinesi.
Hluti hælisleitenda dvelur í Víðinesi. mbl.is/Árni Sæberg

Hún segir að við stór tímamót sé oft erfiðari fyrir fólk sem á um sárt að binda. „Þetta er því tilraun til að sýna fólki að það sé einhvers virði og að þrátt fyrir allt þá sé margt fólk sem styður það og bjóða það velkomið í okkar samfélag.“

Boðið verður upp á kaffi og kökur en stefnt er að því að fögnuðurinn hefjist eftir kvöldmat. Sérstakt barnahorn verður á staðnum og boðið verður upp á ýmis skemmtiatriði.

Algengt að fólk sé einangrað

Þórunn segir að rúmlega 40 manns hafi boðið fram aðstoð sína í tengslum við kvöldið en stærsta áskorunin sé samgöngumál. „Það virðist lífsins ómögulegt að koma fólki á milli staða nema með rútu. Við höfum verið að vinna í því að redda rútu og erum enn að vandræðast hvað það varðar en það leysist vonandi í dag.“

Eins og komið hefur fram í fréttum er hópur hælisleitenda í Víðinesi, langt frá næstu byggð. „Það er algengt að fólk sé einangrað úti í sveit. Það var upprunalega hugmyndin; að reyna að ná til fólks sem er alltaf langt frá öllu og öllum. Það eru tæplega 800 hælisleitendur á landinu en við reiknum nú ekki með að allir komi. Við ætlum að gera okkar besta til að flytja þá sem hafa áhuga á að koma á staðinn og heim aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert