Aldrei í sögunni hefur verið framleidd meiri mjólk hér á landi en á því ári sem er að ljúka. Útlit er fyrir að innvegin mjólk til mjólkursamlaga verði 150,6 milljónir lítra sem er 4,6 milljónum lítra meira en á árinu 2015 sem þó var algert metár.
Mjög mikil framleiðsla var á fyrri hluta ársins en síðan hefur dregið úr. Bændur hafa fækkað mjólkurkúm, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Vikuleg framleiðsla er nú 3-3,5% minni en á sama tíma í fyrra en salan eykst annað eins á móti. Það stefnir því í að jafnvægi náist,“ segir Egill Sigurðsson, bóndi á Berustöðum og formaður stjórnar Mjólkursamsölunnar. Framleiðslan er enn töluvert yfir sölu á innanlandsmarkaði og hefur þurft að flytja út afurðir.