Óbyggðaútköllum fjölgað um þriðjung

Það hefur verið í nógu að snúast hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar …
Það hefur verið í nógu að snúast hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar í ár. Útköllum hennar fjölgaði um 15% á milli ára. mbl.is/Eggert

Leitar- og björgunarútköllum Landhelgisgæslunnar í óbyggðum hefur fjölgað um nærri því þriðjung á milli ára. Alls hafa þyrlur Gæslunnar farið í 41 slíkt útkall á árinu. Líkleg skýring á fjölguninni er talin aukin umferð erlendra ferðamanna um hálendið og önnur óbyggð svæði.

Samkvæmt bráðabrigðatölum Landhelgisgæslunnar sem ná til og með 29. desember hefur björgunarþyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar sinnt 251 útkalli á árinu og fjölgaði útköllum flugdeildarinnar um 15% á milli ára. Jöfn og þétt fjölgun útkalla hefur átt sér stað síðastliðin ár en frá árinu 2011 hefur þeim fjölgað um 62%. 

Í fyrra voru leitar- og björgunarútköllin í óbyggðum 31 en í ár hafa þau verið 41. Slíkum útköllum hefur því fjölgað um 32,3 prósent, eða rétt tæplega þriðjung. 

Leitar- og björgunarútköllunum bæði á sjó og landi hefur nú fjölgað um 69% frá árinu 2011. Það ár voru útköllin 26 en í ár eru þau orðin 44. Fjölgun sjóútkalla er meðal annars rakin til þess að þegar bátar og skip detta út úr ferilvöktun stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar er þyrla eða flugvél yfirleitt kölluð út til leitar.

242% fjölgun sjúkraflutninga í óbyggðum

Töluverð fjölgun hefur einnig átt sér stað á sjúkraflutningum Landhelgisgæslunnar. Í byggð hefur þeim fjölgað um 75% frá árinu 2011 en í óbyggðum fjölgar þeim um 40% á milli ára. Sjúkraflutningar úr óbyggðum eru nú tvöfalt fleiri en þeir voru árið 2011, að því er kemur fram í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.

Að sama skapi telur Gæslan mega gera ráð fyrir að fleiri sjúkraflutningaútköll í óbyggðum tengist aukinni umferð ferðamanna á hálendinu eða öðrum afskekktum og óbyggðum svæðum þar sem hefðbundnir sjúkraflutningar með bílum séu illframkvæmanlegir.

„Í ár eru sjúkraflutningar í óbyggðum orðnir 41, samanborið við 29 í fyrra. Um ríflega 40 prósenta fjölgun er því að ræða. Samanburður við 2011 er ennþá meira sláandi, þá sinnti flugdeild LHG 12 sjúkraflutningum  í óbyggðum. Fjölgunin frá 2011-2016 er því 242 prósent,“ segir í tilkynningunni.

Þrátt fyrir að sjúklingum hafi almennt fjölgað benda bráðabirgðatölurmar ekki til að erlendum sjúklingum hafi fjölgað meira en Íslendingum. Hlutfallið á milli þeirra sé nánast það sama frá 2011. Um það bil þriðjungur þeirra eru erlendir en tveir þriðju Íslendingar. Þetta komi nokkuð á óvart í ljósi mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna undanfarin ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert