Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna skorar á innanríkisráðherra að beita sér fyrir því að suðvesturbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði opnuð á ný hið fyrsta.
Greint var frá því á miðvikudag að sjúkraflugvél Mýflugs, sem flytja átti sjúkling frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur, hafi verið flogið til Akureyrar vegna veðurs. Haft var eftir Þorkeli Ásgeiri Jóhannssyni, flugstjóra hjá Mýflugi að við ríkjandi veðuraðstæður hefði verið hægt að lenda á suðvesturbrautinni, sem gjarnan er nefnd neyðarbraut, en henni var lokað í sumar.
Í áskorun sem stjórn Landsamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sendi frá sér í dag er lýst yfir þungum áhyggjum af því ástandi sem skapast hefur í sjúkraflugi á Íslandi. Lokun neyðarbrautarinnar feli í sér að aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu á landinu hafi verið skert.
„Er þetta ástand með öllu óásættanlegt, sérstaklega í ljósi þess að brautin er til staðar og fátt því til fyrirstöðu að hægt sé að hafa hana opna þegar veðurskilyrði krefjast þess,“ segir í áskoruninni.
„Á árinu sem er að líða hafa verið farin 666 sjúkraflug með 703 sjúklinga og nú þegar hefur lokun neyðarbrautarinnar komið í veg fyrir að sjúkraflug í hæsta forgangi hafi getað komið sjúklingi á Landspítalann.“
Skorar sambandið því næst á innanríkisráðherra að beita sér fyrir opnun flugbrautarinnar hið fyrsta.