Erlendur ferðamaður óskaði eftir aðstoð lögreglu skömmu eftir miðnætti í nótt vegna ölvunar leigusala sem hafði leigt honum herbergi í miðborg Reykjavíkur. Lögreglumenn hjálpuðu manninum að endurheimta ferðatösku sína og komu honum á næsta hótel.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að að maðurinn hafi þurft að flýja herbergið vegna ölvunarástands leigusalans. Hann skildi ferðatösku sína eftir og vantaði aðstoð lögreglu við að nálgast hana aftur. Lögreglumenn sóttu töskuna og að ósk ferðamannsins óku þeir honum á hótel.
Lögreglan handtók einnig konu á fertugsaldri í nótt sem grunuð var um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Tilkynning barst um að hún hefði ekið í gegnum stóra rúðu iðnaðarhúsnæðis í Hafnarfirði og var talið að konan hafi gert það af ásettu ráði.
Konan var vistuð í fangageymslu eftir að blóðsýni hafði verið tekið úr henni.