„Faðmaðu heiminn, elskaðu“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Skjáskot/RÚV

„Síðustu mánuði hef ég fundið hve mikla virðingu Íslendingar bera fyrir embætti forseta Íslands, hversu mikils þeir meta þessa tignar- og áhrifastöðu í stjórnskipun landsins. Um leið ætlast fólk til þess að forsetinn telji sig ekki yfir aðra hafinn,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands í nýársávarpi sínu í dag.

Guðni var kjörinn forseti Íslands í júní síðastliðnum og notaði tækifærið og þakkaði öðrum forsetaframbjóðendum fyrir sinn þátt, sem og forverum sínum í starfi; Ólafi Ragnari Grímssyni og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrir hlýhug og góð ráð.

„Síðar á þessu ári mun landsmönnum gefast kostur á að heimsækja Bessastaði án þess að hafa beinlínis fengið um það boð,“ sagði Guðni en á heimasíðu forsetaembættisins, forseti.is, mun fólk geta skráð sig í kynnisferð um þjóðhöfðingjasetrið. 

Forsetinn minntist á hversu hollt það væri hverjum manni að koma til dyranna eins og hann væri klæddur og vitnaði þar í texta tónlistarmannsins Helga Björnssonar: „Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt. Vertu þú sjálfur, eins og þú ert. Láttu það flakka, dansaðu í vindinum. Faðmaðu heiminn, elskaðu.“

Framfarir byggjast á fjölbreytni

Guðni velti því í framhaldinu fyrir sér hvort hægt væri að faðma heiminn. „Nýliðið ár hefur fært mörgum eymd, ógnir og ótta. Fráleitt var árið þó alslæmt og vissulega mætti finna önnur skeið í sögu mannkyns, verri og viðsjárverðari. En margt fór í fyrra á versta veg, sem skyggði á gleði yfir framförum og vonum um betri heim. Í okkar álfu voru hryðjuverk framin víða, í Brussel, Nice og nú síðast í Berlín á jólaföstunni. Í Aleppo á Sýrlandi voru saklaus börn og aðrir borgarar fórnarlömb mannvonsku og miskunnarlauss valdatafls. Víða annars staðar er vargöld þótt kastljósi fjölmiðla sé ekki beint að þeim hörmungum. Á stjórnmálasviðinu urðu líka straumhvörf sem aukið hafa á óvissu. Er þá einkum átt við úrslit forsetakjörs í Bandaríkjunum og væntanlega úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.“

Minntist Guðni á að lengi vel hefði samfélag okkar Íslendinga verið einsleitt en framfarir okkar daga byggi á fjölbreytni; flæði hugmynda og fólks um víða veröld. „Um leið verðum við þó ætíð að tryggja og vernda grunngildi okkar; réttarríki og velferðarsamfélag þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, jafnrétti kynjanna, trúfrelsi og ástfrelsi, málfrelsi og menningarfrelsi,“ sagði Guðni og vitnaði í forsætisráðherra Kanada um það hvernig skal bjóða erlent fólk velkomið til landsins:

„Um okkar daga þykir samlögun hins vegar hafa heppnast mjög vel í Kanada, sambúð fólks af ólíkum uppruna sem talar ýmis tungumál og aðhyllist mismunandi trúarbrögð. „Við höfum sýnt hvernig samfélagið styrkist við það að fá nýja íbúa frá öllum heimsins hornum,“ sagði forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, nýlega – á fundi með borgarstjóranum í Lundúnum, Sadiq Khan,“ sagði forsetinn um Kanada en Íslendingar munu í byrjun árs taka á móti hópi flóttamanna:

„Áformað er að taka snemma á þessu ári á móti um fjörutíu flóttamönnum frá Sýrlandi. Megi þeim auðnast að finna hér friðsælt býli, langt frá heimsins vígaslóð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert