Íslendingar hætti að kaupa vörur frá Kína

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það hvílir á okkur auðvitað sú skylda, okkar fámennu stétt veðurfræðinga á Íslandi, að reyna að upplýsa og halda upplýsingum að fólki,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, í samtali við mbl.is. Í veðurfréttatíma Rúv í gær hvatti Einar Íslendinga til að sniðganga vörur frá Kína og þannig leggja sitt af mörkum til lofslagsmála og hafa ummælin vakið nokkra athygli.

Í fréttatímanum varpaði Einar upp línuriti með hitatölum frá bresku veðurstofunni sem sýndu að hiti á jörðinni hafi aldrei verið jafn hár og árið 2016, eða allt frá því við upphaf mælinga um 1850. „Þarna eru gróðurhúsaáhrif af mannavöldum sem eiga þarna stærstan þáttinn, þá er alltaf spurning um það hvað getum við gert?,“ sagði Einar í fréttatímanum, áður en hann lagði það til að hægt væri til dæmis að sniðganga vörur frá Kína.

Í samtali við mbl.is segir Einar að uppsprettan hafi verið frétt sem birtist á mbl.is á gamlársdag um kolanotkun Kínverja sem vakti hann til umhugsunar og línuritið sem hann rak augun í á Twitter. „Sem veðurfræðingur hef ég ekkert minni áhyggjur en margir aðrir af hækkun hitastigs jarðar og áhrif þess á umhverfi okkar, náttúrufar og lífsafkomu okkar jarðarbúa,“ útskýrir Einar. 

Jákvætt að skapa umræðu um loftslagsmál

Hann segist hafa fengið einhverja tölvupósta og símhringingar eftir að hann lét ummælin falla og telur jákvætt að skapast hafi umræður í kjölfarið. „Það er fínt að fá umræðu um þessa hluti og ekki síst vegna þess að með gjörðum okkar, það sem við gerum dags daglega, þá erum við að leggja okkar litlu lóð á vogarskálar loftslagsmálanna.“ 

Það sé margt sem almenningur getur gert í sínu daglega lífi til að leggja sitt af mörkum og þar á meðal séu vöruinnkaup. „Það er ekki bara hvort að við flokkum sorp eða hvort við keyrum um á jeppa eða ekki. Það er svo margt í okkar daglega lífi sem að hefur þarna áhrif, margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Einar.

Einar segir ekki síður mikilvægt að veðurfræðingar segi frá því sem er að gerast í umræðu meðal vísindamanna úti í heimi og reyna að miðla því áfram á skiljanlegan hátt til almennings á skiljanlegan hátt. „Og það teljum við okkur nú vera að gera og reyna að gera en eflaust mætti maður gera meira af því,“ segir Einar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka