Niðurdýfing í Nauthólsvík

Helgi Guðnason, prestur Fíladelfíu, tók þéttingsfast og örugglega utan um …
Helgi Guðnason, prestur Fíladelfíu, tók þéttingsfast og örugglega utan um skírnarbarnið Andra Svein Hahl. Hann hélt fyrir nefið, lét vaða og kom upp úr kafinu eftir örskotsstund og hafði þá staðfest trú sína. mbl.is/Freyja Gylfa

„Skírnin markar upphaf trúargöngu hvers manns og að athöfn þessi færi fram á nýársdag er í því samhengi um margt afar táknræn,“ segir Helgi Guðnason, prestur í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í Reykjavík.

„Að fólk skírist til trúar með niðurdýfingu er velþekkt í starfi hvítasunnusafnaða og fleiri mótmælendakirkna víða um veröldina. Ég er sjálfur skírður með þessum hætti og hef oft annast svona athafnir. Þó aldrei úti í sjó og því var þetta nokkuð skemmtilegt og hressilegt upphaf á nýju ári. Hins vegar kom mér á óvart þar sem ég stóð með sjóinn í mitti að hann væri ekki kaldari.“

Eins og hjá Jóhannesi skírara forðum

Það var ósk Andra Sveins Hahl, sem býr í Þýskalandi og á íslenska móður, að játa trú sína með dýfingarskírn í Nauthólsvík. Fór sú athöfn fram á tólfta tímanum í gærmorgun, á nýársdag. Andri Sveinn vildi vera skírður á svipaðan hátt og Jóhannes skírði Jesú forðum, eins og segir frá í Biblíunni. Helgi segir athöfn þessa hafa vakið talsverða athygli meðal fólks sem statt var við Nauthólsvíkina í gær, svo sem sjósundkappa sem hafa þann sið að byrja árið með því að busla á þessum vinsæla baðstað borgarbúa.

Þess má geta að í kirkju hvítasunnumanna við Hátún í Reykjavík er sérstök laug til skírna – og athafnir meðal annars baptista og aðventista eru með líku lagi.

Eins og ferming í lútherskum sið

Andri Sveinn er þátttakandi í starfi safnaðar í Þýskalandi sem starfar eftir sama trúarinntaki og hvítasunnukirkjan á Íslandi. „Við bjóðum reglulega upp á skírnarathafnir í Fíladelfíu hér heima. Áður fær fólk sem skírt er ákveðna fræðslu hjá okkur um þessa athöfn og inntak hennar, sem er í raun og veru mjög svipað og fermingin í lútherskum sið. Tvær athafnir í einni, ef svo mætti segja, og fólk verður líka að gera þann greinarmun að formleg skírn í kirkju, eins og við þekkjum hana, og nafngjafir eru alls ekki það sama,“ segir Helgi Guðnason, sem hefur verið þjónandi í hvítasunnukirkjunni í alls níu ár – nú síðast sem prestur safnaðarins. Frá æsku hefur hann tekið þátt í starfi safnaðarins, en margir Helga nákomnir eru þar virkir. Rösklega 2.000 manns eru í Hvítasunnukirkjunni á Íslandi.

Hætt var með kalt skírnarbað

Niðurdýfingarskírn var iðkuð hér á landi fram á 16. öld, að því er fram kemur í helgisiðabók Þjóðkirkjunnar. Fyrirmæli forðum voru þau að annaðhvort væri barninu dýft í vatnið eða vatni ausið með allri aðgát enda væri þetta gert því til velferðar.

Niðurdýfingarskírn var iðkuð hér á landi fram á 16. öld, að því er fram kemur í helgisiðabók Þjóðkirkjunnar. Fyrirmæli forðum voru þau að annaðhvort væri barninu dýft í vatnið eða vatni ausið með allri aðgát enda væri þetta gert því til velferðar.

Að setja barn í kalt skírnarbað þótti þó orka tvímælis og umhyggjusemin er talin ráða því að niðurdýfing hvarf smám saman úr skírnarvenju hér á landi. Við þetta má bæta að niðurdýfingarskírn var viðhöfð hér við kristnitökuna árið 1000. Hetjur þeirra daga vildu ekki fara í kalt Þingvallavatnið og voru því skírðar í Vígðulaug á Laugarvatni og í Snorralaug í Borgarfirði, sem báðar eru heitar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert