„Sagt hefur verið að raunveruleg hætta sé á því að íslenska verði ekki til eftir 100 ár,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu.
Hann gerði stöðu íslenskunnar að umtalsefni og kvaðst stundum velta fyrir sér hvort raunveruleg hætta væri á því að íslenskan myndi í fyrirsjáanlegri framtíð láta svo á sjá að henni yrði ekki bjargað.
Ari Páll Kristinsson, rannsóknaprófessor hjá Árnastofnun, er afar ánægður með að forsætisráðherra hafi tekið málið upp á þessum vettvangi. „Það er auðvitað engin leið til að fullyrða um það en ýmis merki benda til þess að staða tungunnar fari hratt versnandi og sú þróun gæti orðið svo hröð að við ráðum hvorki við eitt né neitt,“ segir Ari Páll í umfjöllun um stöðu íslenskunnar í Morgunblaðinu í dag.