Áverkadauðsföllum meðal barna á Íslandi fækkaði á árunum 1980 - 2010, sérstaklega meðal drengja. Á þessu þrjátíu ára tímabili létust 263 börn á aldrinum 0 - 17 ára af völdum slysaáverka. Flestir sem létust voru í elsta aldurshópnum eða 15 til 17 ára og voru drengir í meirihluta, eða 69,2%.
Algengustu dánarorsakir voru höfuðáverkar, 41,1%. Fleiri dauðsföll áttu sér stað í dreifbýli en í þéttbýli eða 58,5%. Áverkar hafa verið ein aðaldánarorsök barna í heiminum en dregið hefur úr algengi þeirra.
Þetta kemur fram í rannsókn á áverkadauða barna á Íslandi 1980-2010 sem er meistaraverkefni Steinunnar Önnu Eiríksdóttur í lýðheilsuvísindum. Leiðbeinendur voru Þórdís K. Þorsteinsdóttir, Arna Hauksdóttir og Brynjólfur Mogensen. Niðurstöðurnar eru kynntar á ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands sem fer fram í dag og á morgun.
Fleiri hættur geta leynst í sveitum en í þéttbýli og einnig er aðgengi að heilbrigðis- og bráðaþjónustu á þessum landsvæðum lakara en á höfuðborgarsvæðinu, segir Þórdís K. Þorsteinsdóttir, lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ, spurð hvers vegna fleiri slys og dauðsföll eru í dreifbýli.
„Það er mjög jákvætt að tíðnin lækkar en við stefnum að því að draga enn frekar úr þessum dauðsföllum,“ segir Þórdís og bendir á að forvarnir og fræðsla til foreldra um slysahættur hafi borið árangur. Hún nefnir sérstaklega að góður árangur hafi náðst í yngsta aldurshópnum þar sem dauðsföllum vegna slysa hefur fækkað.
Hún bendir einnig á að í dag starfa færri unglingar við störf sem geta verið hættuleg eins og til dæmis á sjó. Fólk er einnig farið að huga að ýmsum öryggisatriðum eins og til dæmis að setja lok á heita potta og meðvitaðra um hættu á drukknun. En um 17,5% létust vegna drukknunar á tímabilinu.
Samkvæmt erlendum rannsóknum hefur fjölskyldustærð áhrif, það er að segja að slys og áverkar eru algengari á börnum ef fjölskyldan er stór og ef foreldrið er einstætt. Þetta hafði engin áhrif hér á landi en skoðuð voru tilvik um fjölda fullorðinna og systkina á heimili.