Leigja 2 herbergja íbúðir á 340 þúsund

Íbúðirnar eru allar nýuppgerðar.
Íbúðirnar eru allar nýuppgerðar. Ljósmynd/Skjáskot Fasteignavefur mbl.is

Leiguverð á tveggja herbergja íbúðum í nýuppgerðu húsi fyrir ofan Bónusverslun í Skipholtinu telst líklega í hærri kantinum. Íbúðirnar, sem eru 77 fm stórar, eru auglýstar á fasteignavef mbl.is til útleigu á 340.000 kr. fyrir mánuðinn.

„Þetta eru fullmubleraraðar íbúðir með húsgögnum, ísskáp, uppþvottavél og öllu,“ segir Sveinn Eyland, fasteignasali hjá Landmark, sem auglýsir íbúðirnar. Hann bætir við að innifalið í leiguverðinu sé hiti, rafmagn og hússjóður og sé kostnaður vegna þessa um 22.000 kr. á mánuði.

Fermetraverð íbúðanna, að frátöldum hita, rafmagni og hússjóði er því um  4.130 kr. hver fermetri, sem samkvæmt tölum Hagstofunnar er töluvert ofan við meðalleiguverð íbúða á svæðinu vestan Kringlumýrarbrautar. Í frétt sem birt var á vef Hagstofu vikuna fyrir jól kemur fram að meðalleiguverð tveggja herbergja íbúða á þessu svæði sé 2.644 kr. m2 sem svarar til 203.588 kr. leiguverðs fyrir 77 m íbúð. Meðalleiguverð á stúdíóíbúð er 3.551 m2 sem gæti þá svarað til 273.427 kr. fyrir stúdíóíbúð af þessari stærð.

Íbúðirnar eru nýlega komnar inn á vefinn og segir Sveinn því ekki enn farið að sýna sig hver áhuginn er.

Lágmarksleiga er tveir mánuðir og íbúðirnar eru því ekki hugsaðar til leigu fyrir ferðamenn.

Spurður hvort verðið sé ekki hátt segist Sveinn ekki tjá sig um það. „Þetta er bara verð frá eigendum íbúðanna,“ segir hann og bendir á að einungis fimm íbúðir í húsinu séu nú í boði, aðrar séu þegar í útleigu, en sömu eigendur eru að öllum íbúðunum.

Sveinn segir ekki algengt að íbúðir til langtímaleigu séu leigðar með öllum húsgögnum. Það á frekar við um skemmri tíma leigu,“ segir hann og bætir við að mögulegt sé að leigja íbúðirnar án húsgagna.

„Það er líka fullt af útlendingum sem koma hingað til að vinna í skemmri tíma, sem borgar sig frekar fyrir að leigja íbúð heldur en að vera á hóteli,“ segir Sveinn.

Lágmarksleiga er tveir mánuðir og leigjast íbúðirnar með húsgögnum.
Lágmarksleiga er tveir mánuðir og leigjast íbúðirnar með húsgögnum. Ljósmynd/Skjáskot Fasteignavefur mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert