Skattlagning áhrif á neyslu

Mikill sykur er í mörgum gosdrykkjum.
Mikill sykur er í mörgum gosdrykkjum. Getty images

Verð hefur greinileg áhrif á gosneyslu á Íslandi. Fyrir hvert prósentustig sem verðið á gosi hækkaði þá minnkaði eftirspurnin um hvert prósentustig. „Skattlagning er áhrifarík leið til að hafa áhrif á neyslu,“ segir Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands.

Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands.
Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands.

 Þetta kemur fram í nýrri rannsókn matvæla- og næringarfræðideildar og hagfræðideildar Háskóli Íslands á þróun sykurneyslu á Íslandi og mögulegum áhrifa- og skýringaþáttum. Laufey greinir frá niðurstöðunni á málstofu sem nefnist Sykurneysla Íslendinga - Lýðheilsuógn? og tilheyrir ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands dagana 3. og 4. janúar.  

Lágt verð og mesta gosdrykkjaneyslan hér af Norðurlöndunum 

Í rannsókninni var skoðað samband eftirspurnar eftir gosi og verð frá 1997 til 2016. Notaðar voru meðal annars verðkannanir Hagstofunnar, gögn um fæðuframboð af vef Embættis landlæknis, ásamt niðurstöðum landskannana á mataræði frá 1990, 2002 og 2012.

Gosdrykkjaneysla er mun meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum og hér er verðið langlægst. Gos er tiltölulega ódýrt. Laufey bendir á að fólk sem á erfitt með að ná endum saman drekkur meira af gosi en aðrir hópar og vísar til könnunar Embættis landslæknis sem var gerð árið 2010/2011. Hins vegar hefur dregið úr sykurneyslu á Íslandi síðustu 15 ár en hún er enn of mikil, að sögn Laufeyjar. Samhliða því hefur gos og sælgætisneysla aukist. Áratugina á undan var sykurneyslan stöðug.  

Verð á gosdrykkjum er lágt á Íslandi.
Verð á gosdrykkjum er lágt á Íslandi. Thinkstock / Getty Images

Sykurskatturinn í of stuttan tíma 

Sykurskatturinn var lagður á sæt matvæli hér á landi í mars árið 2013 og hann var afnuminn 1. janúar 2015. Laufey bendir á að þegar sykurskatturinn hafi verið afnuminn hafi áhrifin ekki verið rannsökuð nægilega vel auk þess hafi hann ekki verið í gildi nógu lengi. „Þetta var afgreitt of fljótt svo að þetta hefði engin áhrif en nú hafa verið gerðir þessir hagfræðilegu útreikningar,” segir Laufey og vitnar til rannsóknarinnar sem var gerð í samstarfi við Davíð Má Kristófersson, prófessor í hagfræðideild Háskóla Íslands.

Skattbreyting hefur áhrif á neyslu grænmetis

Hún er hlynnt því að nota skatt til að hafa áhrif á neyslu og vísar til áhrifaríkra skattbreytinga  á grænmeti árið 2002 máli sínu til stuðnings. Það ár hafi um 30% flatur skattur verið tekinn af öllu grænmeti úr íslenskum gróðurhúsum. „Þá kom skýrt fram að þetta hafði mikil áhrif á neyslu grænmetis sem jókst til muna.“

Til þess að sjá slíkar breytingar er ekki hægt að hringla með skattprósentuna fram og til baka. Breytingarnar verða að vera verulegar þegar um ódýra vöru eins og gosdrykki er að ræða til að sjá áhrifin, að sögn Laufeyjar.     

Fleiri neyttu grænmetis eftir skattalækkun árið 2002.
Fleiri neyttu grænmetis eftir skattalækkun árið 2002. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

 Ekki forsjárhyggja 

Hún segir fræðslu um skaðsemi á neyslu á of miklum sykri vera þarfa og nauðsynlega. Hins vegar hafi hún lítil áhrif ein og sér og gjarnan nái hún ekki endilega til þeirra hópa sem hún þyrfti að hafa áhrif á. Hún segir fræðslu taka tíma og því sé ekki endilega rökrétt að halda því fram að fræðslan ein og sér dugi og svo geti fólk tekið ákvörðun um neysluna sjálft.

Í því samhengi bendir hún á skatta á áfengi og tóbak. „Almenn sátt er í samfélaginu að skattleggja áfengi og tóbak því við vitum um skaðsemi þess. Við vitum að þetta skaðar ekki bara einstaklinga heldur líka samfélagið allt. Það er ekki forsjárhyggja eins og notað hefur verið eins og skammaryrði í samfélaginu. Fyrir okkar samfélag er heppilegt að reyna að takmarka neysluna. Það sama á við um gosið. Það er hagfræðilega hagstætt að skattleggja gosið,“ segir Laufey. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka