Jarðskjálfti sem mældist 3,8 stig reið yfir á Hengilssvæðinu nú fyrir skömmu. Skjálftinn átti upptök sín í um þriggja km fjarlægð suður af Þingvallavatni og fannst hann víða á höfuðborgarsvæðinu, í Hveragerði, á Selfossi og Nesjavöllum, segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri á jarðvársviði Veðurstofu Íslands.
Að sögn Kristínar er enn nokkur skjálftavirkni á svæðinu en skömmu áður en stærsti skjálftinn reið yfir mældist annar skjálfti á svipuðum slóðum upp á 2,8 stig og annar af sömu stærð um tólfleytið.
Bætt við klukkan 12:28
„Í dag 4. janúar kl 11:56 varð jarðskjálfti af stærð 3,8 í Grafningnum, 3 km sunnan við Þingvallavatn. Um 30 jarðskjálftar hafa mælst í hrinunni þegar þetta er skrifað. Skjálfti af stærðinni 2,8 mældist hálftíma áður. Jarðskjálftinn fannst vel víða á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu,“ að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.