Brýnt að móta framtíðarstefnu

Móta þarf framtíðarstefnu í sjúkraflugi.
Móta þarf framtíðarstefnu í sjúkraflugi. mbl.is/Rax

„Það þarf að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum sérstaklega þegar kemur að sjúkraflugi því allir þættir spila saman. Það er margt gott sem er gert í heilbrigðiskerfinu en ný ríkisstjórn verður að hafa kjark til að gera þarfar breytingar sem eru löngu tímabærar,“ segir Björn Gunnarsson, barna-, svæfinga- og gjörgæslulæknir.

Um sjúkraflug“ nefnist ritstjórnargrein Björns í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þar veltir hann upp ýmsum spurningum um sjúkraflug sem hann segir brýnt að móta framtíðarstefnu um. Á næsta ári verður sjúkraflug boðið út. Hann vísar til skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hefur hvatt velferðarráðuneytið til að vanda betur til útboða sjúkraflugs, móta framtíðarstefnu í sjúkraflutningum og taka ákvörðun um aðkomu Landhelgisgæslunnar að almennu sjúkraflugi. 

Flutningstími sjúklings frá Keflavík til Reykjavíkur óásættanlegur

Björn bendir á að sífellt er verið að þrengja að sjúkraflugi og vísar til lokunar neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli. Tíminn sem það tæki að fara með alvarlega slasaðan sjúkling af landsbyggðinni í sjúkraflug á flugvöllinn í Keflavík og þaðan á Landspítalann í Reykjavík er „of langur, sá flutningstími er óásættanlegur,“ að sögn Björns. Einnig bendir hann á að samkvæmt nýju skipulagi við Landspítalann er bygging þyrlupalls ekki fullnægjandi.

Björn Gunnarsson, barna-, svæfinga- og gjörgæslulæknir.
Björn Gunnarsson, barna-, svæfinga- og gjörgæslulæknir.

Hann vill að þyrlur verði að notaðar í ríkari mæli í sjúkraflugi en gert er. Það myndi stytta flutningstíma sjúklinga til muna. Hann veltir því einnig upp hvers vegna þyrlur eru ekki oftar kallaðar út í stað sjúkrabíla meðal annars þegar sjúklingar eru fluttir af Suðurlandi. „Hugsanlega skýrist þessi litla notkun á þyrlum af of löngum viðbragðstíma og viðtekinni venju um að kalla aðeins til þyrlu þegar þörf er brýn, sem er teygjanlegt hugtak,“ segir hann í greininni.    

Spurning um peninga?

Í greininni kemur einnig fram að flest sjúkraflug hér á landi eru með sjúkraflugvél sem er staðsett á Akureyri. Umfang starfseminnar hefur aukist ár frá ári. Árið 2006 voru 464 sjúklingar en hátt í 700 árið 2016. Þrátt fyrir þessa miklu fjölgun hefur hlutfall forgangsflutninga haldist í kringum 40%.   

Skoða þarf hvaða sjúklingar eru sendir með sjúkraflugi til Reykjavíkur, segir Björn. Hann bendir á að ef sjúklingur liggur inni á stofnun á landsbyggðinni í innan við sólarhring greiða Sjúkratryggingar flutning sjúklingsins. Ef sjúklingurinn er fluttur að sólarhring liðnum þarf sjúkrahúsið á landsbyggðinni að greiða fyrir flutninginn. „Stundum veltir maður því fyrir sér hvort sjúkrahúsið sendi sjúklinga strax í burtu til að standa ekki sjálft straum af kostnaðinum ef hann er sendur eftir 24 klukkustundir,“ segir Björn. Hann tekur fram að í þessum efnum sé ekki eitt svar heldur þurfi að velta ýmsu upp og tími sé kominn til þess. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert