Kvikmyndaskólinn leitar að húsnæði

Húsnæði Kvikmyndaskóli Íslands við Grensásveg.
Húsnæði Kvikmyndaskóli Íslands við Grensásveg. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Kvikmyndaskóli Íslands hefur ekki fundið nýtt húsnæði í stað núverandi húsnæðis á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Húsið verður rifið og í staðinn verður 300 herbergja hótel byggt.

Frétt mbl.is: Nýtt 300 herbergja hótel

Leigusamningur Kvikmyndaskóla Íslands rennur út í júní næstkomandi. Hilmar Oddsson, rektor skólans, segir stjórnendur hans hafa vitað af áformunum í langan tíma. „Okkur hefur liðið mjög vel hérna. Þetta er gott hús sem er vel staðsett og þess vegna höfum við ekkert verið að flýta okkur í burtu,“ segir Hilmar en tekur þó fram að tíminn hafi líka verið nýttur til að skyggnast um eftir framtíðarhúsnæði.

Hann segir skólann vera með augastað á nokkrum stöðum, þar á meðal Fannborg þar sem bæjarskrifstofur Kópavogs hafa verið til húsa.

Frétt mbl.is: Kvikmyndaskólinn vill í Kópavog

Hilmar Oddson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands.
Hilmar Oddson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Kvikmyndaskólinn hefur skipt nokkuð oft um húsnæði í gegnum árin. Frá lok ársins 2010 hefur hann verið í Ofanleiti 2, Skipholti 1 og nú á Grensásvegi 1. Áður var skólinn til húsa í Víkurhvarfi í Kópavogi. Hilmar segir það eðlilegt þegar fyrirtæki er á leigumarkaði að vera háð öðrum. Engu að síður hafi þeim liðið einna best á núverandi stað.

„Við höfum lent í ýmsum skakkaföllum undanfarin ár en við höfum alltaf risið upp á lappirnar aftur,“ greinir Hilmar frá en óvissa var uppi um áframhaldandi rekstur skólans árið 2011.

Frétt mbl.is: Stjórnvöld tryggi rekstur Kvikmyndaskólans

Hótelið mun rísa á gatnamótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Þar er …
Hótelið mun rísa á gatnamótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Þar er nú Kvikmyndaskóli Íslands til húsa. Teikning/Batteríið arkitektar

„Núna höfum við verið á góðu róli í tvö ár og ég sé ekki annað en að það haldi áfram næstu ár. Við erum full bjartsýni og viljum koma okkur á góðan stað í sumar þar sem við getum horft til framtíðar því auðvitað er þreytandi að vera alltaf að flytja,“ segir hann.

Vorönn Kvikmyndaskóla Íslands hefst í lok næstu viku og enn er opið fyrir umsóknir. Nemendur skólans eru á annað hundrað talsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert