Skoða hvernig bæta megi lýsingu við Leifsstöð

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Rafstrengur, sem liggur að ljósum í gangvegi að bílastæðunum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, er ónýtur. Þetta segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, en farþegar hafa kvartað undan ljósleysi á svæðinu.

Meðal annars var myndband af aðstæðum sett inn á Facebook-hópinn Bakland ferðaþjónustunnar, þar sem þær eru sagðar skammarlegar.

„Við vitum af þessu og höfum fengið ábendingar um þetta frá farþegum,“ segir Guðni í samtali við mbl.is. Unnið hafi þá verið að lagfæringum um nokkurra daga skeið, en þarna sé rafstrengur, sem liggur að ljósunum, ónýtur.

„Það tók nokkurn tíma að finna hvar hann lá undir gangstéttinni, en lagnaleiðin er nú fundin og stefnt er að því að viðgerð verði lokið fyrir helgina. Auk þess erum við að skoða hvernig við getum bætt lýsinguna enn frekar á þessari leið, sérstaklega í mesta skammdeginu.“

Undanfarnir dagar á við stærstu daga ársins

Facebook-notendur kvörtuðu einnig, á Baklandinu svonefnda, undan því að sorptunnur á staðnum væru fullar.

Segir Guðni að brýnt hafi verið fyrir þeim, sem sjá um sorphirslu, að fylgjast sérstaklega með umræddum tunnum.

„Undanfarna daga hefur umferð um Keflavíkurflugvöll verið gríðarlega mikil og stærstu dagar hafa jafnast á við stærstu daga ársins hvað farþegafjölda varðar. Auk þess hefur veður ekki verið gott og mikið myrkur.

Við þessar aðstæður safnast farangurskerrur hratt upp og það á einnig við um sorp í sorptunnum. Við tökum þessar ábendingar hins vegar til okkar og úrbætur standa yfir,“ segir Guðni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert