Óánægja með blokkir í stað leikskóla

Íbúar á Seltjarnarnesi eru margir hverjir uggandi yfir áformum um að auka byggingarmagn bæjarins en hugmyndir eru uppi um að færa leikskólann Mánabrekku við Suðurströnd og byggja blokkir í staðinn. 

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að 178 athugasemdir hafi borist til bæjarins vegna nýs aðalskipulags sem hefur verið í kynningu. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri segir að tekið verði mark á athugasemdum bæjarbúa um að ekki sé vilji fyrir mikilli þéttingu byggðar á svæðinu í grennd við Eiðistorg. „Mér sýnist það ekki vera vilji bæjarbúa að þétta frekari byggð á Nesinu og þá mun bæjarstjórn koma til móts við bæjarbúa miðað við þær athugasemdir sem hafa fram komið,“ er haft eftir Ásgerði.

Líflegar umræður hafa verið á meðal íbúa á Facebook um málið að undanförnu og þar spratt upp vettvangurinn: Hópur gegn byggingarmassa á Seltjarnarnesi. Sara Elísa Þórðardóttir íbúi á Seltjarnarnesi er ein þeirra sem sendi inn athugasemd og hún segir engan vilja á meðal bæjarbúa til að færa leikskólann og byggja þar 11.000 fermetra húsnæði eins og gert er ráð fyrir í verðlaunahugmyndum arkitektarstofunnar Kanon um framtíðarskipulag á svæðinu. Þar segir m.a.: 

Nýr miðbær Seltjarnarness er í lykilaðstöðu til að verða miðstöð þjónustu og mannlífs bæði fyrir Seltjarnarnes og vesturhluta Reykjavíkur. Með tillögunni er staðarandinn styrktur á grunni núverandi byggðar. Ný byggð er prjónuð við þá sem fyrir er og þannig er mótað nýtt umhverfi sem virkjar núverandi byggð og almenningsrými. Skapaður verður nýr og aðlaðandi miðbær sem mun styrkja bæjarsamfélagið og draga að sér fólk og fyrirtæki.“

Samkvæmt upplýsingum frá bænum var hugmyndin jafnframt að auka framboð á húsnæði fyrir ungt fólk í bænum með því að byggja blokkir við Suðurströnd og Norðurströnd. Sara Ósk bendir þó á að þær blokkir sem hafi verið byggðar á svæðinu við Hrólfsskálamel geti varla talist til íbúða sem ungt fólk geti nýtt sér. Þar hafi verið um að ræða íbúðir í dýrari kantinum sem fæst ungt fólk hafi ráð á að kaupa og ekki sé annað að sjá á tillögunum í aðalskipulagi en að hið sama eigi við um blokkirnar sem ætti að byggja.

Í myndskeiðinu fyrir ofan er rætt stuttlega við Söru Elísu á svæðinu við Suðurströnd. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert