Allt að 810 milljarðar á aflandssvæðum

Frá höfuðborg Panama, þar sem lögfræðistofan Mossack Fonseca hefur haft …
Frá höfuðborg Panama, þar sem lögfræðistofan Mossack Fonseca hefur haft aðsetur.

Í árslok 2015 var uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum á bilinu 350 til 810 milljarðar króna, frá árinu 1990. Mögulegt tekjutap hins opinbera, vegna vantalinna eigna, getur þá numið allt að 6,5 milljörðum króna árlega, miðað við gildandi tekjuskattslög.

Þetta er áætlað í niðurstöðum starfshóps fjármálaráðuneytisins, um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

Meginniðurstaða hópsins er að uppsafnað fjármagn á aflandssvæðum, vegna ólögmætrar milliverðlagningar í vöruviðskiptum yfir tímabilið 1990-2015, geti verið á bilinu 140-160 milljarðar króna.

Ekki hægt að meta lystisnekkjur og skíðaskála

Í skýrslu starfshópsins er gerður sá fyrirvari að með henni sé aðeins gerð tilraun til að meta svokallaðar fjármálalegar eignir, þ.e. bankainnstæður og verðbréf af ýmsum gerðum. Það feli í sér ákveðið vanmat, því ekki sé ólíklegt að einhver verðmæti séu bundin í peningaseðlum, listaverkum, gullstöngum, lystisnekkjum og skíðaskálum, eins og við eigi hjá öðrum þjóðum.

Matið myndi ugglaust hækka talsvert mikið ef hægt væri að taka þessa þætti með í reikninginn, segir í skýrslunni.

Umfangið á bilinu 350 til 810 milljarðar

Meðal annars var stuðst við upplýsingar um eignir í stýringu erlendis ,sem hafa verið notaðar til þess að áætla umfang aflandseigna, en starfshópurinn telur umfang þeirra geta verið á bilinu 110-350 milljarðar króna.

„Árétta þarf að ekki er hægt að segja til um það hversu stór hluti umfangsins hafi verið gefinn upp til skatts á íslensku skattframtali,“ segir á vef fjármálaráðuneytisins.

Að lokum var lagt mat á óskráðar fjármagnstilfærslur milli landa og þær taldar geta numið á bilinu 100-300 milljarðar króna.

Mögulegt sé hins vegar, að þær fjárhæðir sem um ræðir skarist að einhverju leyti. Að því gefnu að fjárhæðirnar skarist ekki er niðurstaðan sú að alls geti umfangið hafa numið á bilinu 350-810 milljarðar í lok árs 2015, með miðgildi í 580 milljörðum króna.

Þekkt er að aflandsfélög séu notuð til að skjóta fé …
Þekkt er að aflandsfélög séu notuð til að skjóta fé undan skatti. AFP

Gæti hafa orðið af 2,8 til 6,5 milljörðum króna árlega

Mögulegt tekjutap hins opinbera, af fjármagnstilfærslum og eignaumsýslu á aflandssvæðum, var einnig skoðað. Starfshópurinn studdist við nokkrar aðferðir, mis víðtækar, að því er fram kemur á vef ráðuneytisins. Þar á meðal var stuðst við heimtur á fjármagnstekjuskatti á Íslandi samkvæmt gildandi lögum.

„Niðurstöður matsins sýndu að hið opinbera geti orðið af af 2,8-6,5 ma.kr. ár hvert, með miðgildi í 4,6 ma.kr., miðað við framangreindar áætlanir um eignaumsvif og að því gefnu að fjármagn sem talið er vera á aflandssvæðum sé ekki gefið upp til skatts á íslensku skattframtali.“

Send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis

Í starfshópnum sátu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins, Hagstofu Íslands, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands og skattrannsóknarstjóra, auk Sigurðar Ingólfssonar, hagfræðings, sem var skipaður formaður hópsins.

Skýrsla starfshópsins hefur verið send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umfjöllunar og þóknanlegrar meðferðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka