Ekkert lát á fjölgun ferðamanna

„Auðvitað er það fagnaðarefni að ferðaþjónustan skuli á svona stuttum tíma hafa fest sig í sessi sem jafnöflug atvinnugrein á Íslandi og raun ber vitni,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri hjá Ferðamálastofu, í samtali við mbl.is. Alls komu 1.767.726 er­lend­ir ferðamenn hingað til lands á síðasta ári en það eru um 40% pró­sent fleiri en árið 2015 þegar þeir voru 1.261.938 talsins.

Leita þarf aftur til ársins 1955 til að finna fordæmi sambærilegrar aukningar milli ára en þá var aukningin 38,4% frá árinu á undan. Sé það aftur á móti sett í samhengi var þar aðeins um að ræða aukningu sem nemur 2.600 ferðamönnum samanborið við 505.788 ferðamenn milli áranna 2015 og 2016.

Athyglisvert er að rýna í tölfræðina yfir þessa miklu og hröðu aukningu en Ferðamálastofa heldur utan um tölur yfir komur ferðamanna hingað til lands. Ferðamálastofa áætlar að um 97% ferðamanna sem koma til Íslands komi með millilandaflugi og byggir tölurnar því á komum ferðamanna í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Meiri dreifing yfir árið

Sé dreifing ferðamanna eftir árstíðum skoðuð kemur kannski ekki á óvart að enn þá sækja flestir ferðamenn landið heim að sumri til. Aftur á móti hefur koma ferðamanna dreifst meira yfir árið og sækja æ fleiri ferðamenn landið heim yfir vetrartímann þar sem hlutfallið hefur farið úr 23% árið 2010 og upp í 31% árið 2016. Hlutfallið hefur haldist stöðugra á vorin og á haustin en þó aukist nokkuð síðan 2010.

Gríðarleg breyting milli ára

Á árunum 2010-2016 hefur brottförum frá Keflavíkurflugvelli fjölgað ört en sem fyrr segir er aukningin tæplega 40% milli áranna 2015 og 2016. Þess ber að geta að tölur ná yfir allar brottfarir af landinu, líka erlendra ríkisborgara sem búsettir eru hérlendis.

Aukning mest í desember

Hlutfallsleg aukning milli ára er hvað mest í desember en fjöldi ferðamanna hef­ur meira en sex­fald­ast í des­em­ber­mánuði frá ár­inu 2010. Heim­sókn­ir ferðamanna eru þá rúm­lega fjór­falt fleiri en fyr­ir tíu árum, árið 2006.

Fleiri Bretar þrátt fyrir Brexit

Athygli vekur að þrátt fyrir lágt gengi pundsins í kjölfar Brexit heldur breskum ferðamönnum áfram að fjölga hér á landi. Af þeim ferðamönnum sem koma hingað til lands eru Bretar næstflestir á eftir Bandaríkjamönnum sem eru langflestir þeirra sem leggja leið sína til Íslands. Þar kann að spila inn í að ef til vill hafa margir verið búnir að bóka ferðina til Íslands áður en þjóðaratkvæðagreiðslan um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu fór fram. Óvíst er því hvort áhrifa Brexit gæti frekar orðið vart á árinu 2017.

Í því samhengi er einnig vert að hafa í huga þá þætti sem oft skipta hvað mestu máli varðandi ákvarðanir um ferðalög, þ.e. ferða- og gistikostnaður. „Þessir tveir liðir í útgjöldum ferðamanna, sem kannski ráða hvað mestu, þeir eru að lækka í verði,“ segir Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar Íslandsbanka, í samtali við mbl.is.

Segir hann að til að mynda með tilkomu Airbnb, bættum flugsamgöngum og fjölgun lággjaldaflugfélaga sem hingað fljúga, hafi þessir föstu kostnaðarliðir, gisting og samgöngur, lækkað þrátt fyrir styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það á þó ekki við um hótelgistingu en þar hefur gistináttaverð hækkað.

Utanlandsferðum Íslendinga fjölgar einnig

Það eru ekki aðeins fleiri erlendir ferðamenn sem heimsækja Ísland heldur eru Íslendingar einnig duglegir að fara utan. Mest var hlutfallsleg aukning í júní en 2016 voru brottfarir Íslendinga 40,4% fleiri en í sama mánuði 2015. Þá er athyglisvert einnig hve mikil aukningin hefur verið á síðustu mánuðum ársins, nóvember og desember, eins og sjá má á þessu grafi.

„Við gegnum kannski tvenns konar hlutverkum svona til skiptis í gegnum lífið – ýmist að vera gestir eða gestgjafar – og við þurfum kannski að sinna báðum hlutverkum og rækja þau með jákvæðni að leiðarljósi,“ segir Ólöf. Ekki megi gleyma því þegar talað er um ferðamenn á Íslandi að Íslendingar fara einnig utan sem ferðamenn.

Mikil fjölgun frá N-Ameríku

„Það er auðvitað áhugavert hversu mikið ferðamönnum frá Norður-Ameríku hefur fjölgað, það er nærri að þeir séu einn af hverjum fjórum ferðamönnum í fyrra,“ segir Ólöf en hún segir athyglisvert hvernig samsetning ferðamanna sem hingað koma er að breytast. Mikil aukning er í komum ferðamanna frá Bandaríkjunum, sem flestir allra þjóða heimsækja Ísland, en á sama tíma virðist hlutfall ferðamanna frá Norðurlöndum nánast standa í stað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert