Einhugur virðist ríkja í bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að hafa eftirlit með kísilmálmverinu United Silicon í Helguvík. Þegar starfsemi verksmiðjunnar fór í gang í lok árs barst talsverð mengun frá henni.
Frétt mbl.is: Glerkísilrykið veldur minnstum skaða
Fyrirtækið United Silicon er orðið starfandi fyrirtæki í sveitarfélaginu og því er erfitt að reyna að stöðva starfsemi þess, segir Guðný Birna Guðmundsdóttir, spurð hvort bæjarstjórnin muni beita sér fyrir því að stöðva starfsemi fyrirtækisins. Guðný situr í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og er fulltrúi Samfylkingarinnar sem myndar meirihlutastjórn ásamt framboðunum Beinni leið og Frjálsu afli.
Fyrsti kísilmálmofn í verksmiðjunni var tekinn í notkun í lok ársins. Í 10 ára áformum United Silicon í Helguvík er horft til þess að hægt væri að reisa allt að fjóra slíka. Til stendur að Thorsil reisi aðra eins verksmiðju við hlið þeirrar sem nú var tekin í notkun.
„Mér finnst varhugavert að bæjarstjórnin hafi samþykkt skipulag fyrir umfangsmikla stóriðju á þessum stað. Ég veit ekki hvort það geti talist frábær hugmynd,“ segir Guðný. Og vísar til stóriðjufyrirtækjanna, kísilversins United Silicon í Helguvík og sambærilegrar verksmiðju sem Thorsil hyggst reisa, álversins sem ekki er víst að verði að veruleika auk sorpbrennslustöðvarinnar Kalka á sama svæði. Sú stöð er eina brennslustöðin á landinu fyrir úrgang og er í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Þegar breyting á deiliskipulag fyrir Thorsil var afgreidd í bæjarstjórn sat Guðný hjá í afgreiðslu málsins. Öll leyfi fyrir Thorsil hafa verið samþykkt.
Guðný ítrekar að bæjarstjórnin muni fylgjast vel með þróun mála hjá fyrirtækinu en vísar til Umhverfisstofnunar sem þurfi að halda áfram að sinna eftirlitsskyldum sínum með fyrirtækinu. „Við erum á nálum og fylgjumst vel með. Við munum að sjálfsögðu ekki leyfa starfsemi fyrirtækis í sveitarfélaginu sem fer ekki eftir settum starfsreglum,“ segir Guðný.
Baldur Þórir Guðmundsson tekur í sama streng og Guðný. Hann ítrekar að bæjarstjórnin fylgist grannt með málum á hverjum degi.„Þetta er nánast í höndum Umhverfisstofnunar,” segir Baldur, spurður um eftirlit með verksmiðjunni.
„Við getum haft einhver áhrif. Það hefur ekki verið rætt til hvaða aðgerða við gætum gripið. Við vonum auðvitað að þetta komist í gott horf en við höfum ekki endalausa biðlund,“ segir hann, spurður til hvaða aðgerða bæjarstjórnin geti gripið.