EFLA verkfræðistofa ákvað að ráðast í þróunarverkefni síðastliðinn vetur í þeim tilgangi að bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda að vetrarlagi.
Þegar mikil hálka er á höfuðborgarsvæðinu er ekki óalgengt að á annað hundrað manns leiti á bráðamóttöku LHS vegna hálkuslysa. Nákvæmar tölur um hálkuslys liggja ekki fyrir.
Aðferðin sem prófuð var felst í því að stígar eru sópaðir niður í yfirborð stígsins og síðan er saltpækli ýrt yfir stíginn til að bæta hálkuvörnina. Athugað var hvort aðferðin gæti verið valkostur við hreinsun stíga og hvaða árangur sú aðferð bæri, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þessa tilraun í Morgunblaðinu í dag.
Ókostur við núverandi aðferð er sá helst að þegar stígur er ruddur verður eftir snjór, sem síðan verður að svelli í leysingum. Sandur sem borinn er á í kjölfar snjóruðningsins verður að litlu gagni þegar ísing leggst yfir hann eða hann er sokkinn í svellið.