Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir fráleitt að halda því fram að birting skýrslu um aflandseignir fyrir þingkosningarnar hefði ekki haft nein áhrif á úrslit þeirra.
„Það að halda því fram eins og Bjarni [Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins] gerir núna að þetta hefði ekki haft nein áhrif varðandi úrslit kosninga er auðvitað fráleitt. Ef skýrslan hefði komið inn á þing stuttu fyrir kosningar og fólk séð svart á hvítu hversu miklu af skattfé er blætt framhjá hefði með sanni í það minnsta komið þessum málaflokki aftur á dagskrá. Ég þori ekkert að fullyrða eins og Bjarni um áhrif á stöðu flokks hans, en þetta hefði breytt umræðunni svo mikið er víst,“ skrifar Birgitta í færslu á Facebook-síðu sinni.
Hún bendir ennfremur á, að margir hafi sagt að stjórnarandstaðan hafi ekki gert neitt til að halda umræðunni um Panamaskjölin lifandi fyrir kosningar.
„Ég er bara ekki tilbúin að fallast á þessa söguskoðun. Píratar héldu t.d. málþing og buðu Evu Joly til landsins til að fjalla um Panamaskjölin, m.a. til að reyna að koma þessu aftur á dagskrá í aðdraganda kosninga: http://nordichouse.is/…/heimurinn-eftir-panamaskjoelin-str…/ - Ég kvartaði við fréttastjóra og ýmsa aðra blaðamenn um skort á umræðu/spurningum um þessi mál í formannaþáttunum og öðrum fréttatengdum þáttum sem tengdust kosningum og varð loks að bregða á það ráð að búa til spjald með orðinu #panama til að reyna að koma þessu í það minnstu í umræðuna eftir einhverjum krókaleiðum,“ skrifar hún ennfremur.