Píratar hafa ekki tekið ákvörðun um hvort íhuga eigi vantraust á ómyndaða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, birti ekki skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum fyrr en nokkrum vikum eftir að henni var skilað til ráðuneytisins.
Frétt mbl.is: Þykir þetta ekkert óeðlilegt
„Við fordæmum þennan gjörning allan og leggjum áherslu á að þetta er mjög svo mikið í stíl við það sem Sigmundur Davíð gerði í því að upplýsa ekki um sín tengsl,“ segir Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is.
Þetta er eitthvað sem kemur held ég alveg örugglega inn á siðareglur þingmanna; að ekki skuli halda upplýsingum frá almenningi,“ bætir Einar við en Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, sendi umboðsmanni Alþingis erindi þess efnis að embættið fjalli um hvort Bjarni hafi gerst brotlegur við gildandi siðareglur ráðherra.
Frétt mbl.is: Telur Bjarna hafa brotið siðareglur
Einar segir málið alvarlegt en menn verði að anda með nefinu og ekki hafi verið ákveðið að lýsa yfir vantrausti á ómyndaða stjórn, eins og kom fram í frétt Rúv.
„Okkur finnst þetta jafnalvarlegt og ástæðan fyrir kosningum var en við erum ekki búnir að ákveða neitt slíkt.“