„Eigum við ekki að segja að hann sé tiltölulega meinlaus,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurður hvað honum þyki um stjórnarsáttmála fyrirhugaðrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem kynnt verður formlega í Gerðarsafni í Kópavogi í dag. Sáttmálinn var kynntur á fundi hjá flokksstofnum stjórnmálaflokkanna þriggja í gærkvöldi.
„Hann er ágætur svo langt sem hann nær, þó það sé sumt sem maður hefði viljað losna við út úr honum. En það er alltaf þannig. En já, hann er ágætur svo langt sem hann nær,“ segir Brynjar ennfremur. Spurður hvort það sé eitthvað sem hann er ánægður með í sáttmálanum fremur en annað, segir hann svo ekki endilega vera. Helst sé það þó áherslan á að halda jafnvægi í ríkisbúskapnum.
„Verkefnin framundan eru aðallega fjármál ríkisins og efnahagsmál sem þarf að passa að fari ekki úr böndunum. Mér sýnist menn vera sæmilega fókuseraðir á það. Ég hef alltaf litið svo á að það sé stærsta velferðarmálið," segir hann. Leggja þurfi áherslu á að tryggja jafnvægi í ríkisbúskapnum og fara ekki í einhverjar skattahækkanir.
„Sjálfur tel ég að það þurfi bara að fara yfir þessi útgjaldafreku kerfi og sníða þau betur að þörfum landsmanna og fá meira fyrir peninginn,“ segir hann.
Spurður hvað hann sé ósáttastur við segir hann það vera til að mynda áherslu á að skylda fyrirtæki til jafnlaunavottunar, Það sé íþyngjandi aðgerð sem feli í sér kostnað og eigi að sínu mati ekki heima í stjórnarsáttmála.