Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bar upp tilnefningar í fimm ráðherraembætti á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokkins í Valhöll fyrir skömmu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Guðlaugur Þór Þórðarson verður utanríkisráðherra, Sigríður Andersen verður dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson verður ráðherra samgöngumála, byggða- og sveitarstjórnamála og Kristján Þór Júlíusson verður menntamálaráðherra en hann hefur gegnt embætti heilbrigðisráðherra.
Unnur Brá Konráðsdóttir verður tilnefning Sjálfstæðisflokksins til forseta Alþingis.
Bjarni sagði að valið á ráðherrunum hafi verið mjög erfitt. „Þetta er mjög erfitt val og það er úr mjög góðum hópi fólks að velja. Úr mínu sæti þarf ég að horfa til margra sjónarmiða,“ sagði hann.