Guðmundur Bergkvist segist hafa orðið alveg heillaður af sauðfjárbændum í Skaftártungu sem hann fékk að fara með í nokkrar fjallferðir í stórbrotinni náttúrufegurð. Hann frumsýnir á morgun heimildarmynd sína, Fjallkóngar, sem er fyrst og fremst mynd um fólk, en ekki kindur. Guðmundur segir fólk hafa tekið góðan tíma í að hleypa honum að sér. Hann var fimm ár að vinna að myndinni.
„Það stóð ekki til í upphafi að taka fimm ár í að gera myndina, en ég fór þrisvar á fjall með þessu fólki og þar fyrir utan myndaði ég það við störf sín á öllum árstímum. Fókusinn í myndinni er vissulega á fjallferðir, af því að afrétturinn er það sem sameinar þetta fólk. Þau eru öll í sauðfjárrækt og til að geta verið í því af alvöru þá verður fólk að hafa afrétt til að reka féð á yfir sumarið. Og þá verður fólk líka að sameinast um afréttinn og standa saman í fjárleitum, þó að allt logi kannski í illdeilum undir niðri,“ segir Guðmundur og hlær.
Guðmundur segir að hann hafi eignast marga góða vini í fólkinu sem er í myndinni hans.
„Ég varð alveg heillaður af þessu öllu saman, að fara með þeim á fjall og kynnast þeim öllum svona vel. Nú fer ég á þorrablótin í sveitinni og hvað eina,“ segir hann og hlær alsæll.
„Þetta var mikil langferð hjá mér, þessi fimm ár, og rosalega erfitt á köflum, ég lenti í öllum andskotanum. Ég lenti tvisvar í brjáluðu veðri, í annað skiptið var það mannskaðaveður, þá fórst erlendur ferðamaður nokkra kílómetra frá þar sem við vorum. Ég fauk út af á fjórhjólinu og mátti litlu muna að ég dræpi mig. Ég kom þarna í upphafi tökuferlisins í fjárskaðaveðrinu haustið 2012, þá var brjálæðislega hvasst og ég var á byrjunarreit í kynnum mínum af þessu fólki. Menn voru ekkert alveg á því að hleypa mér að sér, enda ekki sjálfgefið að fólk geri það strax. Það tók talsverðan tíma.“
Guðmundur segir að þó vissulega komi sauðfé mikið fyrir í myndinni hans, þá sé hún fyrst og fremst um fólk.
„Það sem ég fékk upp í hendurnar í þessari mynd var margt ótrúlegt. Það voru atburðir sem ég sá ekki fyrir, til dæmis óvænt dramatík,“ segir Guðmundur hinn dularfyllsti og bætir við að ekki skemmi fyrir að ein manneskjan í myndinni, sauðfjárbóndinn Heiða á Ljótarstöðum, sé nú orðin nokkuð þekkt persóna á Íslandi eftir að bók Steinunnar Sigurðardóttur um hana kom út um síðustu jól.
„Ég byrjaði að vinna með henni í þessari mynd löngu áður en hún varð svo landsfræg sem raun ber vitni, en ég held ekki vatni yfir því hvað hún Heiða er mögnuð. Hún er algerlega grjótmögnuð, ég hef endalaust álit á þessari manneskju. Og allt þetta fólk í myndinni er mjög áhugaverðir persónuleikar og auðvitað alveg harðduglegt allt saman.“
En hvers vegna heitir myndin Fjallkóngar í fleirtölu, þegar aðeins einn fjallkóngur er í hverri fjallferð?
„Einn í þessum hópi hefur þá skoðun að þau séu öll fjallkóngar þegar komið er inn til fjalla, og þetta skýrist enn betur þegar fólk hefur séð myndina. Ég ætla ekkert að upplýsa meira um það,“ segir Guðmundur og bætir við að hann sé líka mjög ánægður með tónlistina í myndinni sem styðji vel við efnið, enda tveir snillingar sem sömdu og útsettu, þeir Jónas Sigurðsson og Kristinn Snær Agnarsson.
Svokölluð „alheimsfrumsýning“, eða forsýning fyrir um 100 manns, var á myndinni í Skaftártungu í nóvember, í heimabyggð fólksins sem hún fjallar um. „En á morgun er frumsýning í kvikmyndahúsi í höfuðborginni. Ég samdi um aðeins eina sýningu þar, en þar sem það er uppselt á hana þá verður önnur sýning daginn eftir, föstudaginn 13. janúar á sama tíma klukkan 18," segir Guðmundur og bætir við að hann sé að vinna í því að selja sýningarréttinn á henni til sjónvarps, en ekkert sé þó fast í hendi.