„Við viljum stuðla að því að hælisleitendur og flóttafólk búi við mannúð og mannlega reisn og önnur grundvallarréttindi, eins og aðrir þegnar landsins,“ segir Sema Erla Serdar um stofnun SOLARIS – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.
Stofnfundur SOLARIS fer fram á Reykjavik Bus Hotel klukkan 20 í kvöld en að sögn Semu Erlu hefur hópur fólks unnið að stofnun samtakanna síðustu vikur. Má rekja upphafið til neyðarsöfnunar sem hún hrinti af stað fyrir íbúa Skeggjagötu í nóvember síðastliðnum.
„Það bárust fregnir af því að íbúarnir byggju við hræðilegar aðstæður. Ég fór þarna niður eftir, bankaði upp á og fékk að koma inn og skoða aðstæðurnar. Þetta voru eiginlega hræðilegustu aðstæður sem ég hef labbað inn í og húsið líka illa farið.“
Neyðarsöfnun gekk afar vel og um 300 einstaklingar, samtök og fyrirtæki lögðu sitt af mörkum. „Við söfnuðum húsgögnum, borðbúnaði, afþreyingu og klæðnaði. […] Okkur tókst að búa til alveg ágætis lifnaðaraðstæður, allavega svona tímabundið, og það var gríðarlegur munur að sjá fyrir og eftir.“
Sema Erla segir fólk reglulega hafa samband við hana til að gefa húsgögn, klæðnað og ýmsa aðra muni til hælisleitenda og flóttafólks. „Okkur vantar geymsluhúsnæði þar sem hægt er að sortera og vinna við þessar safnanir. Ég er nú þegar búin að fylla mitt húsnæði.“
Hópurinn sem stóð að neyðarsöfnuninni sá þó ástæðu til að taka verkefnið skrefinu lengra.
„Við vorum í samskiptum við Útlendingastofnun, Rauða krossinn og marga aðra og það kom í ljós að Skeggjagatan, eins slæm og hún var, var ekki eina dæmið og ekki það versta heldur. Síðan þá er margt búið að gerast í málefnum hælisleitenda og flóttafólks. Maður kveikir í sér og lætur lífið [en málið fær] lítil sem engin viðbrögð frá yfirvöldum. […] Þó að verkefninu með Skeggjagötuna hafi lokið mjög vel er greinilega mjög mikið sem að ennþá þarf að gera.“
Hlutverk Solaris verður margþætt en samtökin munu meðal annars standa að fleiri neyðarsöfnunum og beita sér fyrir bættum aðstæðum fyrir hælisleitendur og flóttafólk.
„Sem samtök viljum við þrýsta á breytingar í málefnum þessa fólks. Við viljum bætta stöðu, þau eiga að fá aukið aðgengi og aukin réttindi. Þetta eru svo slæmar aðstæður sem þau búa við. Félagsleg einangrun, skortur á aðgengi og réttindum. Við getum sagt að þetta sé allt til þess fallið að fólki líði ekki vel.“
Stofnfundur SOLARIS í kvöld er öllum opinn en þar verður hægt að skrá sig í samtökin.
„Við verðum með skráningarblöð í kvöld og svo verður hægt að skrá sig bara strax eftir stofnun. Sumir vilja vera sjálfboðaliðar, sumir vilja fara í einhver ákveðin verkefni og aðrir vilja kannski styrkja. Allir eru velkomnir og við óskum bara eftir öllum lausum höndum. Það er verk að vinna.“
Að sögn Semu Erlu er líklegt að eitt af fyrstu verkum samtakanna verði að óska eftir fundi með nýjum ráðherra félags- og jafnréttismála.
„Við tökum líka fagnandi á móti öllum ábendingum og hugmyndum um verkefni sem að samtökin ættu að skoða.“