„Hugmyndin varð til á hlaupum“

Pétur Helgason vonast til að sjá sem flesta í 100. …
Pétur Helgason vonast til að sjá sem flesta í 100. Powerade vetrarhlaupinu í kvöld. Ljósmynd/Pétur Helgason

„Við erum báðir hlauparar og hugmyndin varð til á hlaupum,“ segir Pétur Helgason sem ásamt Degi Egonssyni og fleiri hlaupaáhugamönnum mun standa fyrir 100. Powerade-vetrarhlaupinu nú í kvöld.

Þeir Pétur og Dagur hafa sl. 16 ár borið hitann og þungann af vetrarhlaupum Powerade í sjálfboðavinnu.

„Við erum upphafsmenn að þessum valkosti að hlaupa á veturna. Það var ekki um auðugan garð að gresja í vetrarhlaupum og okkur fannst kjörið tækifæri að bjóða upp á svona valkost,“ segir Pétur og kveður þá félaga hafa þróað Powerade-hlaupið á sunnudagsskokki sumarið 2000.

65 tóku þátt í fyrsta hlaupinu

Hann vonast til að sjá sem flesta í 100. Powerade-hlaupinu sem að venju hefst við gervigrasvöll Fylkis klukkan 20 í kvöld, en skráning hefst í Árbæjarlaug hálftíma áður. „Aðstæður eru mjög fínar. Það er ekkert að svona veðri,“ segir hann. „Það er miklu betra að hlaupa í þessu, heldur en einhverjum rigningarsudda í kringum frostmark.“

Upphaflega hugmyndin að baki vetrarhlaupunum hefur haldist óbreytt frá upphafi. Sex hlaup eru haldin hvern vetur og það fyrsta fer fram í október ár hvert og það síðasta í mars. Alltaf er hlaupið annan fimmtudag í mánuði.

Margt hefur þó breyst í hlaupamenningu landans á þessum 16 árum og hefur hlaupurunum til að mynda fjölgað verulega. „Það voru 65 sem tóku þátt í fyrsta hlaupinu og það kom okkur í raun á óvart hvað það voru margir,“ segir Pétur. Í dag taka á milli 350-400 þátt í hverju hlaupi.

Um 350-400 manns taka þátt í hverju Powerade vetrarhlaupi.
Um 350-400 manns taka þátt í hverju Powerade vetrarhlaupi. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkrir nálgast 90 hlaupin

Um 4.000 manns hafa tekið þátt í Powerade-hlaupinu frá upphafi. Þátttökurnar eru orðnar 22.000, sem felur í sér að hver hlaupari hefur að meðaltali mætt 4-5 sinnum. Sumir eru þó mun duglegri og er Pétur farinn að kannast við marga þátttakendur sem mæta aftur og aftur. Enginn þeirra slær þó við Grafarvogsbúanum Þóreyju Gylfadóttur sem er búin að taka þátt í 88 Powerade-hlaupum.  „Svo eru þarna 2-3 til viðbótar sem nálgast 90 hlaupin,“ segir Pétur.

Hlutfall kvenna í hópi hlauparanna hefur líka farið vaxandi á þessum 16 árum og hefur farið úr 25% upp í 40%. Erlendum hlaupurum fer einnig fjölgandi í Powerade-vetrarhlaupinu og segir Pétur töluvert um að erlendir ferðamenn kynni sér áður en þeir koma til landsins hvort ekki séu einhver hlaup í boði.

Hvergi nærri hættir

Þeir Pétur og Dagur hafa staðið fyrir framkvæmd Powerade-vetrarhlaupsins ásamt þeim Kristjáni Ágústssyni, Guðmundi Magna, Þórði Sigurvinssyni, Sæmundi Þórðarsyni og Guðna Ingólfssyni sem hafa staðið með þeim vaktina í sjálfboðavinnu allan þennan tíma.

„Þetta er svona hugsjón. Við erum allir hlauparar og það er kannski þannig sem þetta gengur best,“ segir Pétur. Þeir félagar eru hvergi nærri hættir að standa fyrir vetrarhlaupunum, enda allir á besta aldri. „En við þurfum þó að fara að íhuga hverjir taka við af okkur einhvern daginn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert